Óvíst er hvort Delta Two, fjárfestingarsjóði í eigu stjórnvalda í Katar, mun takast að að yfirtaka bresku verslunarkeðjuna Sainsbury í kjölfar frétta um að Robert Tchenguiz, sem fer með um 10% hlut í félaginu, ætli væntanlega að hafna tilboðinu, að því er Financial Times greinir frá. Formlegt tilboð af hálfu katarska fjárfestingarsjóðsins, sem á fyrir um 25% hlutafjár í Sainsbury, hefur enn ekki verið gert en óformlegar viðræður um hugsanlega yfirtöku á bresku verslunarkeðjunni hafa átt sér stað undanfarin misseri.

Fréttum ber hins vegar ekki saman um hvort Tchenguiz hyggst hafna tilboðinu. Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildarmanni sínum sem vel þekkir til gangs mála að Tchenguiz ætli að samþykkja tilboðið að því gefnu að stjórn Sainsbury taki þá ákvörðun að mæla með því við hluthafa félagsins.

Í frétt Financial Times segir að Tchenguiz, sem jafnframt er einn helsti samstarfsaðili Kaupþings á Bretlandseyjum og stjórnarmaður í Exista, telji að tilboð Delta Two, sem myndi meta Sainsbury á samtals 10,6 milljarða punda, sé ekki nægjanlega hátt; sanngjarnt og raunsætt verð fyrir félagið sé 610 pens á hlut - eða jafnvel meira - að mati Tchenguiz.

Er Delta Two tilbúið að bjóða 625 pens fyrir hlutinn?
Ef rétt reynist að Tchenguiz muni leggjast gegn tilboðinu yrði það verulegt áfall fyrir katarska fjárfestingarsjóðinn, en Sainsbury-fjölskyldan, sem á um 18% hlutafjár í verslunarkeðjunni, hefur nú þegar sett sig upp á móti yfirtöku Delta Two miðað við þá upphæð sem sjóðurinn hefur sagst ætla að bjóða. Ef þessir tveir aðilar - Tchenguiz og Sainsbury-fjölskyldan - fallast ekki á tilboðið útilokar það fyrirhugaða yfirtöku sjóðsins á félaginu, nema Delta Two geri breytingar á tilboði sínu, en það er sjóðnum nauðsynlegt að afla sér samþykkis 75% hluthafa við tilboðið til að geta skráð fyrirtækið af markaði. Síðastliðinn aprílmánuð runnu tilraunir einkafjárfestingarsjóðsins CVC um að kaupa Sainsbury fyrir 582 pens á hlut út í sandinn sökum andstöðu Tchenguiz og Sainsbury-fjölskyldunnar.

Delta Two mun annað hvort þurfa að hækka fyrirhugað tilboð sitt eða lækka það hlutfall hluthafa sem þarf að samþykkja tilboðið - úr 75% niður í 50% - ef sjóðnum ætlar að takast ætlunarverk sitt, en slík breyting myndi hins vegar um leið verða til þess að gera fjármögnun tilboðsins mun dýrari heldur en ella. Sir Philip Hampton, stjórnarformaður Sainsbury, mun hitta forsvarsmenn Delta Two næstkomandi þriðjudag.

Þrátt fyrir að Delta Two hækki tilboð sitt í 610 pens á hlut, líkt og Tchenguiz hefur mælt fyrir, þá er engu að síður ólíklegt að fjárfestingarsjóðnum takist að sannfæra Sainsbury-fjölskylduna til að fallast á slíkt tilboð. Fjölskyldan hefur áður gefið það í skyn að hún telji að tilboð upp á 625 pens á hlut sé nær lagi. Sérfræðingar telja sennilegt að Delta Two sé reiðubúinn til að fara svo hátt - en bréf Sainsbury stóðu í kringum 583 pens á hlut í gær. Áður en orðrómur um hugsanlega yfirtöku á bresku verslunarkeðjunni hófst í febrúar síðastliðnum stóðu bréfin 445 pens á hlut. Frá þeim tíma hafa fjölmörg félög verið orðuð við kaup á fyrirtækinu.