Lögmaðurinn Lárus Sigurður Lárusson hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna frétta þar sem greint var frá því að honum hafi verið vikið frá störfum sem skiptastjóri þrotabús fasteignafélagsins Þórodds ehf. af Héraðsdómi Reykjavíkur vegna brots á starfs- og trúnaðarskyldum. Segist Lárus vera að skoða að kæra úrskurð héraðsdóms til Landsréttar þar sem hann sé ekki sammála niðurstöðunni. Hann hafi borið hana undir aðra lögmenn sem hafi tekið undir þá afstöðu hans.

„Í niðurstöðunni er ekki efast um lagaheimildir skiptastjóra til þess að ráðstafa eignum þrotabúa. Mikið af þeim aðfinnslum sem voru gerðar voru minniháttar og eiga ekki að valda frávikningu skiptastjóra. Ég hafna því að hafa tekið eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni búsins og byggir sú fullyrðing dómsins á huglægu mati á aðstæðum, þar sem m.a. litið er fram hjá áhrifum Covid-19 faraldursins á efnahagslíf þjóðarinnar,“ segir Lárus í yfirlýsingunni.

„Niðurstaðan byggir líka á röngum upplýsingum um söluþóknun fasteignasala. Í úrskurðinum er á því byggt að fasteignin hafi verið í einkasölu en staðreynd málsins er að hún var í almennri sölu og söluþóknun tók mið af því skv. verðskrá. Þá er það viðtekin venja þegar fasteignasala er rekinn samhliða lögmannstofu að eignir sem þessar séu seldir í gegnum fasteignasölu viðkomandi lögmannsstofu sem annast búskiptin,“ bætir hann við.

Hann segir jafnframt að fasteignin sem um ræðir sé sérstök og ekki hægt að verðmeta eins og venjulegt íbúðarhúsnæði. Hún lúti því öðrum lögmálum í sölu enda fjárfesting og verðmæti fjárfestinga taki sveiflum eftir hreyfingum í efnahagslífi. „Ég hef undir höndum tvö verðmót frá fasteignasölum sem styðja söluverð eignarinnar. Ekki var aflað dómkvadds mats um verðmæti eignarinnar. Ástand fasteignarinnar að öðru leyti var afar bágborið og ég hef undir höndum fjölda ljósmynda sem teknar voru af ástandi hennar bæði innandyra og utan en þær lágu ekki fyrir í niðurstöðu héraðsdóms.“

„Lárus telur ennfremur að málsmeðferðin fyrir dómi sé óskýr þar sem aldrei var þingfest ágreiningsmál heldur eingöngu boðað til sáttafunda um aðfinnslurnar. Af þessu leiðir t.a.m. að sannsögli var ekki brýnt fyrir aðilum sem mættu á fund til að lýsa atvikum eins og gert er við vitnaskýrslur,“ segir að lokum í yfirlýsingu Lárusar.

Segir af sér formennsku Menntasjóðs Námsmanna

Skömmu eftir að ofangreind yfirlýsing var birt barst önnur yfirlýsing frá Lárusi þar sem hann greinir frá því að hann hafi beðist lausnar sem formaður Menntasjóðs Námsmanna vegna málsins.

„Lárus Sigurður Lárusson lögmaður hefur beðist lausnar sem formaður Menntasjóðs námsmanna, vegna dóms sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í liðinni viku og varðaði störf hans fyrir þrotabú fasteignafélagsins Þóroddsstaða ehf. Lárus Sigurður er ósammála niðurstöðu dómsins og kannar nú forsendur áfrýjunar. Hann telur mjög brýnt að deilumál vegna þrotabúsins hafi ekki áhrif á önnur störf sín, þ.m.t. vinnu hans fyrir Menntasjóð námsmanna,“ segir í yfirlýsingunni.

„Menntasjóður námsmanna er afar mikilvæg stofnun sem gegnir grundvallarhlutverki í samfélaginu. Því er brýnt að friður ríki um stjórn og starfsemi Menntasjóðsins og það góða starf sem þar er unnið fái að halda áfram án óþarfa gagnrýni. Ég hef af þessum sökum beðist lausnar sem formaður Menntasjóðs, og einnig undan öðrum trúnaðarstörfum mínum. Ég hef þegar tilkynnt Menntamálaráðherra þessa ákvörðun,“ er haft eftir Lárusi í yfirlýsingunni.