Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur hafnað kyrrsetningarkröfu Datacell og Sunshine Press Productions (SPP) á eignum Valitor. í fréttatilkynningu frá Valitor segir að ákvörðunin komi ekki óvart því Valitor hafi talið að kyrrsetningarkrafan hafi ekki átt við nein rök að styðjast.

Þá segir einnig að vert sé að benda á að langstærstur hluti krafna framangreindra félaga á hendur Valitor, eða um 95%, er krafa SPP sem er að langmestu leyti í eigu Julian Assange, auk nokkurra Íslendinga. „Það félag hefur aldrei átt í neinu viðskiptasambandi við Valitor. Auk þess hefur félagið aldrei haft nema hverfandi tekjur en gerir samt milljarða kröfur á hendur fyrirtækinu. Valitor hefur frá upphafi talið að enginn grundvöllur sé fyrir kröfugerð SPP og hefur því ítrekað hafnað henni. Auk þess er vert að minna á að enginn dómur hefur fallið um kröfugerð SPP.“

Datacell og SPP héldu því fram að Valitor hafi valdið þeim tjóni með riftun árið 2011 á samningi um greiðslugátt sem gerði félögunum kleift að taka á móti greiðslum í gegnum internetið. Hugðist Datacell nýta gáttina til fjársöfnunar í þágu Wikileaks samtakanna með milligöngu SPP.

Valitor segir að félögunum hafi þó alls ekki verið allar bjargir bannaðar með lokun gáttarinnar enda hafi félögin sjálf bent á nokkrar aðrar leiðir að gefa fé til Wikileaks. Auk þess hafi á vefsíðu samtakanna allan þann tíma sem greiðslugáttin var lokuð vísað til fjölmargra annarra greiðsluleiða, s.s. með rafmynt, millifærslum á bankareikning og með Paypal.

„Forsvarsmaður Wikileaks hefur greint frá því að samtökin hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna lokunarinnar heldur stórgrætt, þar sem þau hafi orðið að taka við bitcoin gjaldmiðlinum þess í stað, en verðmæti hans hefur aukist um 50.000% síðan þá.

Wikileaks hefur meira að segja greint frá því opinberlega að rafmyntirnar bitcoin og litecoin hafi verið helsta fjármögnunarleið þeirra á þeim tíma sem greiðslugátt Valitor var opin. Þessu til viðbótar má benda á að á þriðja hundrað evrópskir færsluhirðar veita áþekka þjónustu og Valitor,“ segir einnig í tilkynningunni.