*

laugardagur, 14. desember 2019
Innlent 15. júlí 2019 12:53

Hafnarfjörður dæmdur skaðabótaskyldur

Héraðsdómur dæmir arkitektastofunni Hornsteini í vil vegna kostnaðar við hönnun skóla sem aldri var byggður vegna hrunsins.

Ritstjórn
Rósa Guðbjartsdóttir sem tók við sem bæjarstjóri í Hafnarfirði í vor var í forsvari fyrir stýrihóp um byggingu nýs grunnskóla í Skarðshlíð sem styrinn hefur verið um.
Haraldur Guðjónsson

Hafnafjarðarbær þarf að greiða arkitektastofunni Hornsteinar ehf. skaðabætur á fjártjóni vegna hagnaðarmissis því bærinn ákvað að ganga ekki til samninga við félagið um hönnun og ráðgjöf fyrir byggingu Hamranesskóla. Jafnframt þarf sveitarfélagið að greiða stefnanda 5 milljónir í málskostnað að því er Héraðsdómur Reykjaness hefur úrskurðað, en skaðabótaupphæðin hefur ekki verið ákveðin.

Málið á rætur til þess að Fasteignafélag Hafnafjarðar hafi í apríl 2008 efnt til lokaðs útboðs um hönnun og ráðgjöf fyrir skólann þar sem Hornsteinar voru meðal þriggja hagstæðustu tilboðanna í fyrsta áfanga útboðsferlisins. Loks var tillaga félagsins talin hagstæðust þeirra þriggja í næsta áfanga samkvæmt niðurstöðu matshóps frá febrúar 2010.

Vegna fjárhagsástæðna hafi hins vegar Hafnafjarðarbær ákveðið að bíða með verkefnið en loks árið 2016 hafi Hornsteinar byrjað með fyrirspurnir til bæjarfélagsins. Í framhaldinu var haldinn kynningarfundur um verkefnið, nú með stýrihóp vegna skólauppbyggingar í Skarðshlíð, sem Rósa Guðbjartsdóttur, sem tók við sem bæjarstjóri í Hafnarfirði í vor, var fyrir.

En eftir ítrekaðar fyrirspurnir í kjölfar þess fékk arkitektastofan þau svör að verið væri að vinna málið „mjög hægt enn sem komið er“. Engin svör bárust svo arkitektastofunni þrátt fyrir frekari fyrirspurnir en loks auglýsti sveitarfélagið alútboð vegna Skarðshlíðarskóla í febrúar 2017.

Vildu forsvarsmenn Hornsteins meina að þeir hefðu átt að geta gert ráð fyrir að fá að sjá um hönnun og ráðgjöf vegna nýs skóla á svæðinu loks þegar ráðist yrði í verkefnið en nú mætti sjá fram á að verkefnið yrði falið öðrum.

Hafnarfjarðarbær bar við fyrir dómi að efnahagshrunið haustið 2008 hafði gríðarleg áhrif á bæði sveitarfélög, fyrirtæki og auðvitað landsmenn alla og því hafi forsendur um verkefnið brostið vegna mikillar skuldsetningar bæjarfélagsins. Þessu hafnar dómurinn á þeim forsendum m.a. að árið 2010 hafi bærinn ekki talið forsendur fyrir áframhaldandi samvinnu við arkitektastofuna verið brostna.