„Þeir líta svo á að á meðan viðræður standa yfir þá munum við standa við skuldbindingar okkar,“ segir Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri í Hafnarfirði. Hann og ráðgjafar bæjarstjórnar, lögfræðingar og aðrir sérfræðingar, funduðu með fulltrúum Depfa-bankans frá Þýskalandi í gær. Lán sem bankinn veitti bænum upp á fjóra milljarða króna féll á gjalddaga í apríl.

Lánið er í þremur hlutum og var sá partur þess sem er fallinn á gjalddaga tekinn að láni hjá Depfa-bankanum árið 2008. Þetta er aðeins um einn þriðji af heildarskuldbindingum bæjarins gagnvart þessum eina banka en heildarlánið gagnvart honum stendur í um þrettán milljörðum króna að teknu tilliti til gengisþróunar.

Hver Hafnfirðingur skuldar meira en milljón

Endurfjármögnun lána bæjarsjóðs gagnvart Depfa-bankanum hjá innlendum fjármálastofnunum var langt komin þegar Alþingi samþykkti ný sveitarstjórnarlög fyrir rúmum mánuði. Lögin, sem taka gildi um áramót, kveða á um að aðlögunaráætlanir þeirra sveitarfélaga sem skulda meira en 150% af reglulegum tekjum geti náð yfir áratug.

Fram kom í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í síðustu viku að skuldir Hafnarfjarðarbæjar nema 243% af tekjum. Það jafngildir því að hver bæjarbúi skuldi tæpa 1,1 milljón króna.

Depfa-menn kynna sér ný lög

Fulltrúar Depfa-bankans eru staddir hér á landi um þessar mundir, ræða við lántakendur og kynna sér ný sveitarstjórnarlög. „Við höfum verið á fundum með þeim reglulega allt árið. Margir þeirra hafa verið í gegnum síma,“ segir Guðmundur Rúnar og bendir á að málið sé í jákvæðum farvegi. Haft hefur verið eftir honum endrum og eins í fjölmiðlum að stutt sé í að niðurstaða fáist í málið. Hann vill ekkert segja um það í dag.

„Það er ekkert vit í að setja tímapunkt á það hvenær viðræðum getur lokið. En ég er bjartsýnn á að við förum senn að sjá til lands í málinu,“ segir hann.

Haft var eftir bæjarstjóranum í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ í gær þar sem fjallað var um endurskoðun á fjárhagsáætlun bæjarins að leiðarljósið hafi verið að standa við þær skuldbindingar sem þar voru settar fram. Það hafi tekist.

Guðmundur segir viðræðurnar við fulltrúa Depfa-banka lið í áætlun bæjarstjórnar að standa við skuldbindingar sínar.

„Það að koma málinu í réttan farveg er hluti af því að standa við skuldbindingar sínar. Á meðan þessi viðsemjandi okkar er ekki kominn í innheimtuaðgerðir er ljóst að hann hefur trú á að það gangi eftir,“ segir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.