Atvinnuvegaráðuneytið telur að Hafnarfjarðarbær hafi ekki átt forkaupsrétt að kvóta af frystitogararnum Þór HF-4 frá Hafnarfirði. Frá þessu er sagt í Fréttablaðinu í dag.

Tilkynnt var í lok janúar að Þór hefði verið seldur til Rússlands og Stálskip, eigandi skipsins, óskaði samhliða eftir því að aflaheimildir skipsins yrðu fluttar á skip útgerða sem starfa utan  Hafnarfjarðar. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði töldu að bæjarfélagið ætti forkaupsrétt á aflaheimildunum og sala frá bæjarfélaginu hefði verulega neikvæð áhrif á atvinnumál í bænum.

Ráðuneytið hefur hafnað þessum sjónarmiðum Hafnarfjarðar. Aðeins átta manns af 37 manna áhöfn hafi verið búsettir í Hafnarfirði og því séu áhrifin af sölunni óveruleg fyrir bæjarfélagið. Bæjarráð Hafnarfjarðar telur sig hlunnfarið og hefur ákveðið að stefna Stálskipum.