Eins og fram hefur komið var Álftanesbær sviptur fjárforræði fyrir nokkrum misserum og því er eðlilegt að spyrja Guðmund Rúnar Árnason, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, hvort til þess geti komið að Hafnarfjörður lendi í svipaðri stöðu ellegar þurfi að leita til ríkisstjórnarinnar um aðstoð.

„Við höfum verið í mjög góðu samráði við Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga undanfarin misseri og hún fylgist vel með stöðu og þróun mála. Við höfum jafnframt lagt okkur fram um að upplýsa opinbera aðila og stjórnvöld um stöðuna og þá vinnu sem við erum í, ekki síst í tengslum við endurfjármögnunina," segir hann og bætir því við að allar athuganir, bæði þær sem áðurnefnd Eftirlitsnefnd hefur látið gera og skýrsla um skuldaþol bæjarins, sem ráðgjafarfyrirtækið Capacent vann fyrir bæjarstjórn, séu á einu máli um að Hafnarfjörður hafi alla burði til að standa undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum til lengri tíma litið. Guðmundur ítrekar að vandinn sé greiðslubyrði næstu missera.

„Það breytir ekki því að ég hefði gjarnan viljað sjá ríkið greiða götu sveitarfélaga sem eru í tímabundnum endurfjármögnunarvanda. Þá er ég ekki að tala um að ríkið greiði fyrir okkur skuldirnar, heldur beiti sér gagnvart erlendum lánardrottnum og veiti til dæmis aðgang að erlendum lánalínum, sem mér skilst að séu að talsverðu leyti ónotaðar," segir Guðmundur og bætir því við að ríkisstjórnin hefur kynnt ýmsar aðgerðir til stuðnings skuldsettum fyrirtækjum og heimilum, en sveitarfélögin hafi einhverra hluta vegna fengið að glíma við sinn vanda ein og óstudd. „Í því sambandi má benda sérstaklega á skýrslu og tillögur svokallaðra  tekjustofnanefndar, sem skilaði af sér áliti í október á síðasta ári. Þar er lagt til að efnt verði til samráðs ríkisstjórnar, Lánasjóðs sveitarfélaga, lifeyrissjóða, Seðlabanka og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nefndin lagði mikla áherslu á hlutverk ríkisins í þessu sambandi, en það hefur því miður ekki gengið eftir," segir hann og ítrekar að Hafnarfjarðarbær muni standa við allar sínar skuldbindingar, fjárhagslegar og félagslegar, þótt vissulega sé bærinn með vindinn í fangið sem stendur og á næstunni.

 Guðmundur Rúnar Árnason er í viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir flipanum Tölublöð.