Rekstrarniðurstaða Hafnarfjarðarkaupstaðar fyrri hluta ársins 2018 var jákvæð um 758 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarafgangur yrði 449 milljónir króna. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi kaupstaðarins.

Helstu frávik eru að framlög jöfnunarsjóðs voru umfram áætlun um 93 milljónir króna, aðrar tekjur voru um 140 milljónum króna umfram áætlun og fjármagnskostnaður var um 119 milljónum króna lægri en áætlun gerði ráð fyrir.

Tekjur námu 13.153 milljónum króna sem er 237 milljónir umfram áætlun. Laun og launatengd gjöld eru stærstu útgjaldaliðir sveitarfélagsins og námu þeir 6.299 milljónum króna sem er 53 milljónum krónum hærra en áætlun gerði ráð fyrir. Annar kostnaður var 4.400 milljónir sem er í takt við áætlun.

Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir var jákvæð sem nam 1.468 milljónum króna. Afskriftir voru 493 milljónir króna og fjármagnsliðir 708 milljónir króna. Veltufé frá rekstri nam um 1.957 milljón króna sem er um 15% á móti heildartekjum.

Rekstur málaflokka gekk vel og var í takt við áætlanir. Stærsti málaflokkurinn er fræðslu- og uppeldismál en til hans var varið um 6.208 milljónum króna, til félagsþjónustu um 1.801 milljónum króna og til æskulýðs- og íþróttamála um 922 milljónum króna.

Heildareignir námu í júnílok samtals 51.691 milljónum króna og höfðu þær hækkað um 517 milljónir á tímabilinu. Heildarskuldir og -skuldbindingar námu samtals 39.946 milljónum króna. Tekin voru ný lán vegna uppgjörs við lífeyrissjóðinn Brú vegna A-deildar að andvirði 2.036 milljónum króna og 500 milljónir króna vegna byggingar nýs hjúkrunarheimilis. Aðrar framkvæmdir voru fjármagnaðar af eigin fé og söluandvirði lóða.