478 flugferðir voru farnar milli Keflavíkur og Kastrup á fyrstu þremur mánuðum þessa árs samkvæmt frétt Túrista . Það jafngildir 10% fækkun frá því á sama tíma í fyrra.

Hins vegar fjölgaði farþegum og voru þeir 75.367 á fyrstu þremur mánuðum ársins. Til samanburðar bjuggu um 27.000 manns í Hafnarfirði um síðustu áramót.

Um þrír fjórðu hlutar farþeganna flugu með Icelandair. Túristi greinir frá því að hlutdeild fyrirtækisins á flugleiðinni hafi haldist nokkuð stöðug síðustu ár, en að hún sé hærri heldur en fyrir áratug síðan. Þegar Iceland Express hafi hafið starfsemi árið 2003 hafi flugfélagið fljótlega náð 40-45% hlutdeild á flugleiðinni, en að sú hlutdeild hafi ekki haldist og að WOW air hafi ekki heldur tekist að saxa á forskot Icelandair.