Rekstur Hafnarfjarðarbæjar, A- og B-hluta, var rekinn með 2,3 milljarða króna afgangi en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 307 milljóna króna tapi. Munurinn skýrist af söluhagnaði sveitarfélagsins á 15,4% hlut í HS Veitum sem nam 3,34 milljörðum króna. Sé leiðrétt fyrir sölunni var afkoma Hafnarfjarðarbæjar neikvæð um 360 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2020.

Skatttekjur A-hlutans námu 28,9 milljörðum króna eða um tveimur milljörðum yfir áætlun. Munurinn skýrist aðallega af 1,4 milljarða króna tekjum af lóðaúthlutun en fjárhagsáætlun hafði ekki gert ráð fyrir neinum tekjum undir þessum lið. Útsvar sveitarfélagsins var einnig um 624 milljónum króna yfir áætlun.

Eigið fé Hafnarfjarðarbæjar (A- og B-hluta) nam 16,9 milljörðum króna í lok síðasta árs. Lífeyrisskuldbindingar námu nærri 14 milljörðum króna, skuldir 36 milljarðar og eignir því 66,9 milljarðar í heildina. Skuldaviðmið Hafnarfjarðar lækkaði úr um 11 prósentustig á síðasta ári og var 101% í árslok 2020.

„Hafnarfjarðarbær hefur mætt neikvæðum áhrifum Covid-19 faraldursins með því að styrkja efnahagslegar undirstöður sveitarfélagsins. Á undanförnum árum hefur skuldaviðmið bæjarsjóðs farið stöðugt lækkandi og með sölu á 15% hlut bæjarins í HS Veitum er svo komið að það hefur ekki verið lægra í áratugi. Við höfum getað haldið uppi öflugri þjónustu við íbúa og markvissri uppbyggingu innviða. Við stefnum ótrauð á frekari fjárfestingar í bænum á komandi árum,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri.

Á fundi bæjarstjórnar var jafnframt staðfest úthlutun á síðustu lóðunum í Hamranesi, nýbyggingarsvæði sunnan Skarðshlíðarhverfis og Vallahverfis. Þar munu rísa hátt í 1.800 íbúða hverfi á næstu mánuðum og árum. Áætlaður íbúafjöldi er rúmlega 4.000. Samanlagt er áætlað að íbúafjöldi nýrra hverfa í Skarðshlíð og Hamranesi verði um 5.300 í um 2.300 íbúðum. Í Vallahverfi, sem stendur næst þessum hverfum, búa rétt rúmlega 5.700 íbúar og er því gert ráð fyrir að heildarfjöldi á þessu svæði sunnan Reykjanesbrautar yst í Hafnarfirði nærri tvöfaldist á næstu árum.

Leiðrétting: Í upphaflegu fréttinni var haldið því fram að afkoma sveitarfélagsins (A- og B-hluta), leiðrétt fyrir sölunni á hlutnum í HS Veitum, hafi verið neikvæð um 1,1 milljarð króna. Rétta talan er þó nær 360 milljónum króna, þar sem ekki hafði verið leiðrétt fyrir fjármagnstekjuskattinum af söluhagnaðinum.