*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 22. desember 2007 00:43

Hafnarfjörður og Orkuveitan ræða málefni Hitaveitu Suðurnesja á næstunni

?Ýmislegt sem þarf að skoða?

Ritstjórn

Bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Lúðvík Geirsson, hefur í bréfi til Orkuveitu Reykjavíkur óskað eftir fundi með forsvarsmönnum hennar til að ræða sölu Hafnarfjarðar á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja. Sömuleiðis möguleg kaup Hafnarfjarðar á hlut í OR. „Það er ýmislegt sem þarf að skoða,“ segir Hjörleifur Kvaran, forstjóri OR, í samtali við Viðskiptablaðið og segir að hann muni setja sig í samband við Lúðvík næstu daga til að ræða þessi mál.  Bréfið var rætt á stjórnafundi OR í dag, föstudag. 

Hjörleifur vísar þarna meðal annars til þess að í samþykkt bæjarráðs Hafnarfjarðar í vikunni segir að forsendur kaupa Hafnarfjarðar á hlut í OR ráðist meðal annars af sameiginlegri afstöðu varðandi framtíðarskipan dreifikerfis rafmagns innan lögsögu Hafnarfjarðar. Hjörleifur bendir á að Hitaveita Suðurnesja ráði yfir dreifikerfinu. Því sé óljóst hvernig Orkuveitan eða Hafnarfjörður eigi að taka afstöðu til framtíðarskipan þess. Þetta sé meðal þess sem þurfi að skýra.  

Meirihluti bæjarráðs Hafnarfjarðar samþykkti eins og kunnugt er í vikunni að selja OR allt að 95% hlutafjár Hafnarfjarðar í HS. Þá samþykkti meirihlutinn að taka upp formlegar viðræður við OR um möguleg kaup bæjarfélagsins á hlut í OR. Hafnarfjörður á nú um 15,4% hlut í HS.  

Í viljayfirlýsingu Reykjanesbæjar, OR, Hafnarfjarðarbæjar og Geysis Green Energy frá því í júlí í sumar, um Hitaveitu Suðurnesja, kemur fram að komi til sölu á hlut Hafnarfjarðar í HS muni Reykjanesbær og GGE ekki nýta forkaupsréttarheimild sína að þeim hluta. Í yfirlýsingunni segir enn fremur að viðskipti með hlut Reykjanesbæjar í HS fari fram á genginu 7,1. Gunnar Svavarsson, bæjarfulltrúi Hafnarfjarðar, hefur sagt í samtali við Viðskiptablaðið að hlutur Hafnarfjarðar í HS væri metinn á átta milljarða.  

Sveitarfélög á Suðurnesjum stofnuðu formlega í vikunni opinbera hlutafélagið Suðurlindir. „Tilgangur félagsins er að standa vörð um sameiginlega hagsmuni sveitarfélaganna Grindavíkur, Hafnarfjarðar og Voga og íbúa þeirra varðandi náttúruauðlindir í landi sveitarfélaganna við Trölladyngju, Sandfell og Krýsuvík, m.a. mögulega nýtingu jarðvarma og eignar og nýtingarétt hvers sveitarfélags fyrir sig,“ segir í samþykktinni um stofnun Suðurlinda. „Sérstaklega verði horft til nýtingar orkulinda til atvinnuþróunar og uppbyggingar í sveitarfélögunum þremur.“  

Þegar Hjörleifur er spurður hvort stofnun Suðurlinda kunni að hafa einhver áhrif á verðmæti Hitaveitu Suðurnesja vill hann ekki kveða upp úr um það, að svo stöddu. Það sé eitt af því sem verði rætt á fundi með Hafnfirðingum á næstunni.