Hafnfirska fjölskyldufyrirtækið Rekstrarumsjón ehf. sérhæfir sig í umsjón með rekstri húsfélaga ásamt því að veita þjónustu og ráðgjöf til einstaklinga og lögaðila varðandi útleigu fasteigna.

Helga Soffía Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Rekstrarumsjónar ehf., segir félagið hafa þá sérstöðu fram yfir önnur sambærileg fyrirtæki á markaðnum að geta veitt viðskiptavinum sínum alhliða þjónustu og ráðgjöf varðandi eignir sínar milliliðalaust. Auk þess eru flestir keppinautar félagsins staðsettir í Reykjavík.

„Við fjögur systkinin og foreldrar okkar eigum fyrirtækið saman og erum öll starfsmenn þess, en nú er mágur minn, sem er lögfræðingur, að koma til viðbótar inn í fyrirtækið í fullu starfi og svo eru hinir á hliðarlínunni,“ segir Helga. Í hópnum, auk lögfræðinga, eru byggingarsérfræðingar, bókari og sjálf er hún hagfræðingur með masterspróf í fjármálum fyrirtækja.

„Okkur fannst vera pláss fyrir svona fyrirtæki á markaðnum, sérstaklega hér í Hafnarfirði og þessu svæði hérna í kringum okkur. Við Hafnfirðingar höfum alltaf verið ánægðir með að geta verslað við aðra Hafnfirðinga og halda þjónustunni hér gangandi svo okkur fannst tímabært að stofna svona fyrirtæki hér.“

Fjölskyldan hefur lengi starfað í byggingageiranum, en faðir hennar er Guðjón Snæbjörnsson, sem rekur G.S. Múrverk. „Þó að fyrirtæki okkar sé í sjálfu sér ungt erum við með reynslu í útleigu, viðhaldi og rekstri fasteigna, enda hafa foreldrar mínir rekið byggingarfyrirtæki sitt síðan 1991, en samhliða því hafa þau byggt upp ágætis eignasafn og sinnt útleigu á eignum,“ segir Helga.

„Það er alltaf samkomulagsatriði milli leigusalans og okkar hversu mikla þjónustu hann vill fá, en við getum aðstoðað við gerð leigusamninga, við að fylgja því eftir að greiðslur berist og við uppsögn ef þess gerist þörf. Auk þess hefur fjölskyldan lengi verið að veita alls konar ráðgjöf varðandi framkvæmdir, gallamál og annað slíkt.“

Sitja uppi með húsfélögin ár eftir ár

Þegar hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði sá fjölskyldan sér leik á borði að tvinna við þessa starfsemi sína rekstur á húsfélögum. „Oft eru verktakar sem eiga íbúðir í blokkum sem við erum að þjónusta útleigu á, einnig að kaupa af okkur þjónustu fyrir húsfélagið,“ segir Helga sem segir ýmsa samþættingu vera milli þessara verkefna.

„Málefni húsfélaganna lenda í mörgum tilfellum á örfáum einstaklingum sem virðast sitja uppi með húsfélagið ár eftir ár. Það er ekki sjálfsagt í þeim hraða sem orðinn er í samfélaginu að fólk hafi tíma til að sinna málefnum húsfélaga af fullum krafti, enda krefst rekstur og málefni húsfélaga bæði mikillar vandvirkni og tíma.

Síðan verða fjölbýlishúsin sífellt stærri og þar af leiðandi umfangið meira. Því getur orðið gríðarleg vinna í kringum þetta allt sem og að fylgjast með greiðslum. Ég tala nú ekki um ef húsfélagið er að fara í framkvæmdir, þá skiptir miklu máli að hafa einhvern með sér sem er með þekkingu og reynslu, en er jafnframt óháður og getur séð um hlutina.“

Helga segir þjónustu fyrirtækisins ekki vera kostnaðarsama, sérstaklega miðað við tímasparnaðinn sem þessu fylgir, en til að koma sem best til móts við mismunandi þarfir viðskiptavina býður félagið upp á þrjár mismunandi rekstrarleiðir fyrir húsfélög.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .