Hafnarfjarðarbær hefur gefið út nýjan skuldabréfaflokk upp á 5,5 milljarða króna að nafnverði. Skuldabréfin eru til 30 ára með greiðslu afborgana og vaxta á sex mánaða fresti. Skuldabréfin bera 3,75% fasta flata verðtryggða vexti. Hægt er að stækka skuldabréfaflokkinn upp í átta milljarða.

Fram kemur í tilkynningu að útgáfan er liður í endurfjármögnun á skuldum Hafnarfjarðarbæjar sem og fjármögnun hjúkrunarheimilis.

H.F. Verðbréf höfðu umsjón með útgáfunni og útboði skuldabréfanna. Skuldabréfaflokkurinn verður gefinn út rafrænt hjá Verðbréfaskráningu Íslands hf. í dag og verða bréfin tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar innan árs frá útgáfudegi þeirra.