"Samkvæmt verðbólguspá bankans verður hægt að lækka stýrivexti á fjórða ársfjórðungi á þessu ári," sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri þegar hann rökstuddi þá ákvörðun Seðlabankans að halda stýrivöxtum óbreyttum í 14,25% í gær, fimmtudag. Aðspurður hvort að mögulegt sé að lækka vexti fyrr, sagði Davíð það ólíklegt miðað við núverandi aðstæður. "Hins vegar verður vaxtalækkunarferillinn hraður, þegar hann fer af stað," sagði hann.


Að sögn hans er forsendan þó sú að aðstæður haldist óbreyttar á næstu mánuðum. "Verði hinsvegar að frekari uppbyggingu stóriðju á spátímabilinu mun hægja á hjöðnun framleiðsluspennu sem gæti orðið til þess að stýrivextir myndu hækka enn frekar og haldast háir lengur en ella," sagði Davíð. Að hans sögn myndi stækkun Álversins í Straumsvík samhliða uppbyggingu álvers í Helguvík hafa þessi áhrif.


Að sögn Þóru Helgadóttur, sérfræðings hjá greiningu Kaupþings, mun stækkun álversins í Straumsvík koma til með að auka vaxtaaðhald Seðlabankans. "Ef stækkunin verður samþykkt má búast við áframhaldandi verðbólgu og viðvarandi viðskiptahalla," segir Þóra. Hún segir skilaboð Seðlabankans skýr í þessu máli. "Ef farið verði út í stækkun álversins í Straumsvík eins og staðan í hagkerfinu er um þessar mundir þá sé strangt vaxtaaðhald og hærri vextir, uppsett verð," segir Þóra.


Að sögn Þóru mun kosningin um stækkun álversins í Straumsvík sem fram fer á laugardaginn óhjákvæmilega hafa áhrif á hagkerfið hvernig sem kosningin fer. "Ef niðurstaðan verður já, og álverið stækkað megum við búast við auknu vaxtaaðhaldi frá Seðlabankanum. Ef niðurstaðan verður nei munum við klárlega sjá einhver viðbrögð á fjármálamörkuðum þar sem að sú niðurstaða mun koma markaðsaðilum á óvart. Gengið mun líklega veikjast í kjölfarið," segir Þóra. Að hennar mati verða þessi áhrif þó skammvinn þar sem að markaðsaðilar munu fljótlega átta sig á að önnur stóriðjufjárfesting komi í staðinn enda losnar þar um orku sem hægt verður að nýta annars staðar.


Ljóst er því að Hafnfirðingar kjósa um fleira en eingöngu stækkun álversins og mun atkvæðagreiðsla þeirra hafa víðtæk áhrif á þróun hagkerfisins á næstu misserum. Að mati greiningar Glitnis er spurningin um stækkun stærsti óvissuþátturinn sem liggur fyrir um þróun stýrivaxta á þessu ári. "Verði af stækkuninni er líklegt að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum háum lengur en ella. Ef Hafnfirðingar hafna stækkun teljum við hins vegar að vextir fari að lækka í kringum mitt ár og standi nokkuð lægri í árslok," segir greining Glitnis í Morgunkorni sínu í gær.