*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Fólk 23. janúar 2020 16:04

Hafrún, Lilja og Eggert til CCEP

Coca-Cola European Partners á Íslandi hefur bætt við sig þremur nýjum stjórnendum að undanförnu.

Ritstjórn
Hafrún Pálsdóttir, Lilja Rut Traustadóttir og Eggert H. Sigmundsson, nýir starfsmenn CCEP.
Aðsend mynd

Coca-Cola European Partners á Íslandi hefur bætt við sig þremur nýjum stjórnendum að undanförnu, en nýverið hófu Lilja Rut Traustadóttir, Eggert H. Sigmundsson og Hafrún Pálsdóttir störf hjá fyrirtækinu. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Lilja Rut Traustadóttir veitir nú forystu gæða-, umhverfis-, heilsu- og öryggismálum hjá Coca-Cola á Íslandi. Hjá fyrirtækinu eru um 160 starfsmenn, þar af um 100 á vörustjórnunarsviði við framleiðslu, í vöruhúsi og dreifingu, bæði í Reykjavík og á Akureyri:  „Það er að mörgu að huga í stóru fyrirtæki og fjöldi spennandi áskorana. Við njótum góðs af því að vera hluti af alþjóðlegu fyrirtæki sem leggur gæðamál, öryggi og heilsu starfsfólks til grundvallar, auk þess að setja sífellt aukna áherslu á umhverfismál. Öll þessi málefni eru drifin áfram af kröfum samfélagsins, þá einkum það sem varðar gæði matvæla og sjálfbærni, sem er bæði spennandi og mikilvægt. Ég hlakka til að takast á við þessa áskorun, með öllu því afburðafólki sem vinnur hjá fyrirtækinu," segir Lilja Rut.

Lilja Rut hefur stjórnendareynslu í gæða-, öryggis- og heilsumálum, en hún starfaði hjá Gæðabakstri - Ömmubakstri í tæp 7 ár, fyrst sem gæðastjóri og síðar sem gæða- og mannauðsstjóri. Þar áður starfaði hún í heilsugeiranum sem ráðgjafi og þjálfari. Lilja Rut hefur starfsleyfi sem næringarfræðingur, lauk mastersgráðu í næringarfræði árið 2016 frá Háskóla Íslands og B.Sc. gráðu í næringarfræði frá sama skóla árið 2012. Hún er gift Jóni Kolbeini Guðjónssyni, verkfræðingi og eiga þau tvö börn.

Eggert H. Sigmundsson er nýr forstöðumaður Víking brugghúss sem er í eigu Coca-Cola European Partners á Íslandi. Hjá Víking brugghúsi vinna 27 starfsmenn og þar eru framleiddar fjölmargar tegundir af bjór: „Það eru spennandi tímar framundan í bjór og drykkjarframleiðslu. Þetta er lifandi markaður og samkeppnin er mikil en ég veit að við erum með frábæra vöru. Þar ber hæst að nefna Víking gylltan sem er okkar stærsta vörumerki og vinsælasti bjórinn á Íslandi. Við framleiðum einnig Einstök og Thule sem eru meðal mest seldu bjóra landsins. Í framleiðslunni er fullt af áskorunum og krefjandi verkefnum sem ég hlakka til að vinna að í skemmtilegum og öflugum hópi starfsfólks hjá CCEP," segir Eggert.

Eggert hefur verulega stjórnunarreynslu í matvælaiðnaði en hann starfaði sem framleiðslustjóri hjá Norðlenska matborðinu síðastliðin 12 ár. Hann lauk B.Sc í Sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2004. Eggert er giftur Sólrúnu Óladóttur Iðjuþjálfa og eiga þau þrjú börn á aldrinum 6-18 ára.

Hafrún Pálsdóttir er nýr sölustjóri á veitingamarkaði hjá Coca-Cola á Íslandi en hún, ásamt öflugu söluteymi, ber ábyrgð á sölumálum á veitingamarkaði um land allt: „Drykkjarvörumarkaðurinn er skemmtilegur og spennandi auk þess að vera krefjandi. Coca-Cola á Íslandi er öflugt fyrirtæki og hjá fyrirtækinu starfar reynslumikill hópur fólks sem hefur metnað til að veita góða þjónustu og er ávallt með viðskiptavininn í öndvegi. Ég hlakka til að halda áfram að vinna að spennandi verkefnum með því flotta fólki sem  hér starfar," segir Hafrún.

Hafrún hefur mikla reynslu af sölu og stjórnun en hún starfaði síðastliðin 10 ár við sölumál flugfélaga, þar af 7 ár hjá WOW air sem forstöðumaður á sölu- og markaðssviði. Hún útskrifaðist með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2009 og er gift Óskari Sigurðssyni viðskiptafræðing og eiga þau saman eina dóttur.

Stikkorð: CCEP