Hafsteinn Bragason hefur verið ráðinn starfsmannastjóri hjá Actavis-samstæðunni. Hafsteinn, sem er sálfræðingur að mennt, var áður stjórnandi Mannauðslausna hjá IMG. Hann mun sjá um samræmingu mannauðsmála hjá dótturfyrirtækjum Actavis, með hliðsjón af stefnumörkun samstæðunnar og vinna að því að tryggja hagkvæmni og gæði mannauðsmála.

Hafsteinn lauk B.A.-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1993. Þá lauk hann M.A.-gráðu í vinnu- og skipulagssálfræði frá Free University í Amsterdam í Hollandi árið 1998.

Hafsteinn starfaði hjá AC Nielsen í Hollandi árið 1997 en hóf störf hjá IMG (hét þá Gallup) sama ár. Hann hefur starfað sem ráðgjafi, leiðbeinandi, starfsmannastjóri og stjórnandi hjá IMG. Hann hefur jafnframt verið stundakennari við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands frá 1999. Hann hefur einnig kennt við Háskólann í Reykjavík og Viðskiptaháskólann á Bifröst.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að Hafsteinn hefur víðtæka reynslu í stjórnun, ráðgjöf og þjálfun á sviði sem snýr að forystu, hvatningu og mannauðs-, breytinga- og frammistöðustjórnun. Aukinheldur hefur hann ritað ýmsar greinar um stjórnun og starfsmannamál í íslensk blöð og tímarit.