Vinna við frumvarp um afnám fjármagnshafta er nú á lokastigi og er stefnt að því að kynna það fyrir ríkisstjórn á morgun. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu .

Þar kemur fram að til hafi staðið að kynna frumvarpið á ríkisstjórnarfundi á föstudag, en úr því varð ekki vegna þeirrar athygli sem fór í tillögur stjórnvalda til að greiða fyrir gerð kjarasamninga.

Eftir að frumvarpið hefur verið kynnt fyrir ríkisstjórninni verður það í kjölfarið kynnt fyrir stjórnarandstöðunni. Líklegt þykir að það verði lagt fram á Alþingi í þessari viku.