„Það má segja að frumvörpin séu í einskonar lokayfirlestri. Ég get ekki sett fram ákveðna dagsetningu um hvenær ég fer með málið í ríkisstjórn. Allt mitt fólk er að vinna að því að það gerist sem allra fyrst,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið en þar er greint frá því að frumvörp um losun gjaldeyrishafta séu að verða tilbúin.

Fram kemur að þunginn í vinnunni við gerð frumvarpanna hafi að undanförnu verið meira á laga- en fjármálahliðinni. Að sögn Bjarna er meðal annars unnið að skattafrumvarpi vegna stöðugleikaskatts. Einnig er verið að skoða hvort hægt sé á einhvern hátt að greiða fyrir gerð nauðasamninga með tilteknum breytingum.