Tvö frumvörp, sem eru lykilatriði í aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna losunar fjármagnshafta, voru samþykkt á Alþingi í dag. Frumvarp um stöðugleikaskatt var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. 53 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpi um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki en Ögmundur Jónasson greiddi atkvæði á móti frumvarpinu, einn þingmanna.

Nokkrar breytingar voru gerðar á frumvarpi um nauðasamninga í meðferð málsins hjá Alþingi. Breytingarnar snúa meðal annars að rétti kröfuhafa til að koma að kröfum eftir lok kröfulýsingarfrests. Frumvarpi um stöðugleikaskatt var einnig breytt í meðferð þingsins. Meðal annars þurfa nú fleiri fallin fjármálafyrirtæki að greiða stöðugleikaskatt heldur en upphaflega var lagt til.

Breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki hafa það að markmiði að auðvelda kröfuhöfum að komast að niðurstöðu um nauðasamninga fallinna fjármálafyrirtækja. Lög um stöðugleikaskatt hafa það meðal annars að markmiði að fá kröfuhafa föllnu bankanna til að fallast á svokölluð stöðugleikaskilyrði íslenskra stjórnvalda. Skatturinn verður einskiptisskattur sem lagður verður á þann 15. apríl 2016 og verða gjalddagar fjórir á árinu: 1. maí, 1. júní, 1. júlí og 1. ágúst 2016.