Íslenska haftakrónan hefur styrkst gríðarleg gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum heimsins. Mikið innflæði erlends gjaldeyris hefur haft þessi áhrif. Erlendir fjárfestingarsjóðir hafa verið að fjárfesta í íslenskum ríkisskuldabréfum og Seðlabanki Íslands hefur verið að kaupa gjaldeyri á fullu. Erlendur ferðamannastraumur hefur einnig aldrei verið meiri, en sú þróun hefur haft umtalsverð áhrif á gengi krónunnar.

Pundið féll mikið í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu. Frá áramótum hefur pundið fallið 16,29%, en í heildina hefur pundið fallið um 23,99% á seinasta árinu. Norska krónan hefur veikst um 12,91% gegn krónunni á seinustu 365 dögum og svissneski frankinn um 12,13%.

Kanadadollarinn er nú 10,37% hagstæðari en fyrir ári síðan, en Bandaríkjadollarinn er 10,22% hagstæðari. Danska krónan hefur veikst um 2,49% á seinasta mánuði en um 4,24% frá áramótum. Yfir árið hefur danska krónan veikst um 8,14%.

Japanska jenið hefur styrkst um 6,78% frá áramótum og er kaupgengi nú 1,15 krónur á jen.