„Nú liggur fyrir, m.a. vegna óhagstæðra ytri aðstæðna, að sá tímarammi hefur ekki reynst nægjanlega rúmur, auk þess sem komið hefur í ljós að fastar tímasetningar henta illa til að ná fram réttum hvötum við að tryggja árangursríkan framgang afnámsáætlunarinnar,“ segir í bréfi nefndar um afnám gjaldeyrishafta til formanna stjórnmálaflokkanna. Nefndin fundaði með formönnum þingflokka í dag og verður vinnu við tillögurnar haldið áfram næstu daga.

Nefndin telur rétt að afnema sólarlagsákvæði um gjaldeyrishöftin. Í stað þess vill nefndin að lögum verði breytt þannig að losun hafta verði tengd efnahagslegum skilyrðum sem þurfi að vera til staðar svo losun hafta ógni ekki fjármálalegum stöðugleika. „Að lokum vill nefndin undirstrika þörfina á heildstæðri áætlun um losun fjármagnshafta, sem tekur til allra þeirra þátta sem áhrif geta haft á greiðslujöfnuð Íslands og þá samningsstöðu sem stjórnvöld hafa til lausnar þess vanda,“ segir í bréfinu og hvetur nefndin stjórnvöld til að halda öllum kostum opnum.

Nefnd Alþingis um afnám gjaldeyrishafta samanstendur af fulltrúum allra þingflokka. Nefndinni var falið að leggja mat á núverandi áhætlun um losun hafta, framvindu hennar og eftir atvikum koma með ábendingar og tillögur um breytingar auk þess að veita stjórnvöldum og Seðlabanka aðhald.