*

mánudagur, 26. október 2020
Innlent 18. janúar 2020 17:35

Haftar skrúfar fyrir olíuna

Hershöfðinginn sem ræður yfir mestöllu landsvæði og olíuframleiðslu Líbýu sýnir styrk sinn fyrir friðarviðræður í Berlín.

Ritstjórn
Creative Commons (CC BY-SA 3.0)

Hershöfðinginn Khalifa Haftar sem stjórnar stærstum hluta landsvæðis Líbíu hefur ákveðið að stöðva allan útflutning olíu frá sínum svæðum í landinu í aðdraganda friðarviðræðna við stjórnina í Trípólí. Þar með lokar hann einnig fyrir tekjustreymi til keppinautanna.

Þar með mun framleiðsla á um 800 þúsund olíufötum á dag ekki komast á markaðinn, sem áætlað er að kosti ríkisolíufélag landsins um 55 milljón Bandaríkjadali á dag. Olíuverð hefur hækkað í dag, fór Brent hráolían upp um 0,36%, í 64,85 dali fatið og Vestur Texas hráolían fór upp um 0,09%, í 58,58 dali fatið.

Ráðstefnan á að hefjast á morgun í Berlín, en Haftar gekk af undirbúningsfundi fyrir ráðstefnuna sem haldin var í Rússlandi á þriðjudag og hafnaði að skrifa undir samkomulag við forsætisráðherra landsins, Fayez al-Sarraj sem ríkir í Trípólí, höfuðborg landsins.

Sarraj nýtur stuðnings Sameinuðu þjóðanna og ESB að nafninu til, en einnig múslimabandalagsins, Tyrkja, fyrrum nýlenduherranna í Ítalíu og furstans af Quatar, auk þess sem hann er leiðtogi forsetaráðs bráðabirgðastjórnar sem komið var á fót í landinu 2015.

Haftar bæði með og á móti Gaddafi

Haftar, sem bjó í tvo áratugi í Bandaríkjunum og er með bandarískan ríkisborgararétt nýtur stuðnings Rússa, Frakka og Egypta, auk þings landsins sem flutti sig til Tobruk borgar í austurhluta landsins eftir að múslimabandalagið hafnaði niðurstöðum kosninganna í júní 2014 sem einungis 18% þjóðarinnar tók þátt í.

Hersveitir Haftar, sem var meðal hershöfðingja fyrrum einræðisherrans Gaddafi sem hjálpuðu honum að ná völdum í landinu, en snerist gegn honum og fór í útlegð til Bandaríkjanna, hafa á síðustu mánuðum sótt lengra inn á yfirráðasvæði ríkisstjórnar Sarraj sem ríkir frá höfuðborg landsins Trípólí. Er svo komið nú að hersveitir hliðhollir honum og þingi landsins í Tobruk hafa náð nokkrum úthverfum Trípólí undir sitt vald.

Er talið að með því að stöðva olíuútflutninginn sé hann að sýna vald sitt í aðdraganda friðarviðræðnanna og sýna Evrópubúum fram á að þeir ættu að styðja hann í borgarastríðinu í landinu sem geisað hefur í landinu með mismiklum krafti síðan stjórn Ghaddafi féll árið 2011. Jafnframt hindrar hann tekustreymi til stjórnvalda að því er Bloomberg greinir frá.