Hagamelur ehf., sem er að meirihluta í eigu Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar, skilaði 1.740,7 milljóna króna hagnaði í fyrra, samanborið við 725,7 milljóna króna hagnað árið 2012. Tekjurnar eru allar gengishagnaður eignarhluta í félögum, en Hagamelur átti í ársbyrjun 8,2% hlut í Högum og 5,2% hlut í VÍS.

Ekki er lagt til að greiddur verði út arður vegna ársins 2013. Eignir Hagamels námu í ársbyrjun 5,4 milljörðum króna, skuldir námu 1,8 milljörðum og eigið fé var því um 3,6 milljarðar króna.

Í febrúar á þessu ári seldi Hagamelur meirihluta bréfa sinna í Högum, eða 77 milljónir hluta, fyrir 3,2 milljarða króna. Var sölugengið fjórfalt hærra en þeir Árni og Hallbjörn keyptu hlutinn í Högum á upphaflega.