Smásölufyrirtækið Hagar hækkaði mest allra félaga á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag. Gengi bréfa félagsins hækkaði um 2,26% í dag og endaði daginn í 68 krónum á hlut, sem er hæsta gengi frá skráningu félagsins. Gengi flestra félaga á aðalmarkaði hækkaði í Kauphöllinni í dag, í fremur lítilli heildarveltu upp á 2,8 milljarða króna. Úrvalsvísitalan hækkaði auk þess um 0,67% og stendur nú í 3.307,43 stigum.

Gengi bréfa Iceland Seafood hækkaði um 2,07% í 30 milljóna króna viðskiptum. Gengi hlutabréfa Festi hækkaði jafnframt um 1,82% í um 255 milljóna króna viðskiptum. Gengi flugfélagsins Icelandair hækkaði einnig um 1,45% í 325 milljóna króna viðskiptum.

Eins og svo oft áður var mesta veltan með bréf Arion banka, en viðskipti með bréfin námu 523 milljónum króna og hækkaði gengi félagsins um 0,68% í viðskiptum dagsins. Næst mesta veltan var með bréf Marel, en viðskipti með bréfin námu 400 milljónum króna og hækkaði gengi félagsins um 0,36% í viðskiptum dagsins.

Einungis þrjú félög lækkuðu á aðalmarkaði í dag. Gengi hlutabréfa Eimskip lækkaði um tæpt prósent, Reginn lækkaði um 0,3% og Brim um 0,65%, í óverulegum viðskiptum.

Á First North markaðnum hækkaði gengi Solid Clouds um 15% í einungis 25 þúsund króna viðskiptum á meðan Hampiðjan lækkaði um 4,35% í 36 milljóna króna viðskiptum.