Arion banki er nú að hefja formlegt söluferli á eignarhlut sínum í verslunarfyrirtækinu Högum, sem nemur um 99,5% af útistandandi hlutum í félaginu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.

Fyrsta skref bankans verður að bjóða til sölu kjölfestuhlut í því skyni að fá til liðs við félagið fjárfesti sem veita mun félaginu forystu til lengri tíma. Að lokinni sölu á kjölfestuhlut í Högum verður fagfjárfestum og almennum fjárfestum gefið færi á að kaupa hluti í félaginu, og í kjölfarið er áformað að skrá hlutabréf félagsins í íslensku kauphöllinni.

Arion banki áformar að selja kjölfestufjárfesti 15-29% hlut í Högum. Bankinn mun þó taka til skoðunar öll tilboð sem bankanum berast í eignarhlut sinn í félaginu. Er því fjárfestum, sem áhuga hafa á að kaupa allan hlutinn, gefinn kostur á því að leggja inn slíkt tilboð nú á fyrsta stigi söluferlisins.

Nánara fyrirkomulag þessa fyrsta hluta söluferlisins verður auglýst í lok vikunnar.

Það er Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka sem hefur umsjón með söluferlinu og skráningu Haga, sem er fyrirhuguð á næsta ári, en í þessu ferli nýtur bankinn einnig ráðgjafar Markaðsviðskipta Svenska Handelsbanken.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Það er ákveðinn liður í endurreisn íslensks viðskiptalífs að koma eignarhaldi Haga frá bankanum og í eðlilegri farveg, enda um að ræða stærsta verslunarfyrirtæki landsins sem gegnir mikilvægu hlutverki í smásöluverslun um allt land. Hagar eru öflugt félag sem hefur sýnt stöðugan rekstur í erfiðu efnahagsumhverfi og efnahagur þess er traustur. Við teljum því að Hagar séu áhugaverður kostur fyrir fjárfesta.“

Sala á 10-11 í undirbúningi

Arion banki eignaðist hlut sinn í Högum við yfirtöku á eignarhaldsfélaginu 1998 í október 2009. Þegar hefur verslanakeðjan 10-11 verið skilin frá rekstri Hagasamstæðunnar og er sala hennar í undirbúningi. Einnig hefur verið samið um sölu á eignarhlut Haga í SMS sem rekur matvöruverslanir í Færeyjum.

Á fjárhagsárinu 2009/10 veltu Hagar um 65 milljörðum króna og nam rekstrarhagnaður (EBITDA) um fjórum milljörðum króna, en þá er búið að taka tillit til breytinga á samstæðunni.

Undir samstæðu Haga falla verslanakeðjurnar Bónus og Hagkaup, Útilíf, verslanir á Íslandi undir vörumerkjunum All Saints, Coast, Day, Debenhams, Dorothy Perkins, Evans, Karen Millen, Oasis, Top Shop, Warehouse og Zara, ásamt innkaupafyrirtækjunum Aðföngum, Hýsingu, Banönum og Ferskum kjötvörum.