Hagar byrja í dag endurkaupaáætlun þar sem þeir munu kaupa allt að 10% eigin bréfa upp að hámarki 500 milljónir króna næstu 18 mánuðina. Keypt verða að hámarki ríflega 118 milljón hlutir í félaginu, en aldrei fleiri en tæplega milljón á dag, eða 25% af meðaltali viðskipta dagsins.

Í kjölfar kórónuveirufaraldursins styttu mörg fyrirtæki endurkaupaáætlanir sínar og hættu við arðgreiðslur til hluthafa til að varðveita lausafjárstöðu félaganna í gegnum efnahagserfiðleikana.

Þar á meðal styttu Hagar endurkaupaáætlun sem hófst hjá félaginu í febrúarlok í sumar, eftir að búið var að kaupa bréf fyrir 450 milljónir af 500 milljónum sem áætlað var að kaupa. Samhliða ákváðu Hagar að endurgreiða Vinnumálastofnun kostnað af nýtingu félagsins á hlutabótaleið stjórnvalda vegna minnkandi starfshlutfalls.

Um þetta leyti komu upp háværar kröfur um að stjórnvöld settu skilyrði fyrir ýmsum stuðningi við fyrirtækin, eins og hlutabótaleiðina, sem bönnuðu fyrirtækjum sem nýttu sér þær að greiða út arð eða kaupa eigin bréf og varð það úr.

Afkoma á ákveðnum sviðum smásölu hefur batnað milli ára í heimsfaraldrinum. Hagnaður Haga jókst til að mynda úr 1,1 milljarði í 1,3 milljarð króna á öðrum ársfjórðungi milli ára og framlegð jókst um 9%. Afkoma verslana Haga var betri en í fyrra en rekstur Olís gekk verr.

Meðal annarra fyrirtækja sem hafa keypt eigin bréf undanfarnar vikur eru Skeljungur og Festi sem bæði eru í smásölu og olíusölu líkt og Hagar auk þess að Síminn hefur keypt eigin bréf.

Hagar tilkynntu um nýju endurkaupaleiðina fyrir helgi, en sendu út leiðréttingu nú í morgun þar sem í fyrri tilkynningu sagði um framkvæmd hennar að endurgjald fyrir keypta hluti skuli vera jafnt hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í hlutabréf félagsins sem lægi fyrir í kauphöll þegar kauptilboðið væri sett fram.

Hið rétta er eftirfarandi: Endurgjald fyrir keypta hluti skal ekki vera hærra en sem nemur verði á síðustu óháðu viðskiptum.