Hagar hefur dregið saman seglin á fyrri hluta árs, selt tvær sérvöruverslanir Oasis og eina verslun undir merkjum Saint. Þá er unnið að sölu einnar Saint-verslunar í Smáralind. Áhugi er jafnframt fyrir hendi á því að fækka fermetrum í Smáralind og Holtagörðum. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um sölu á fleiri sérvöruverslunum eða fyrirtækjum í eigu Haga-samstæðunnar.

Þetta kemur fram í fjárfestakynningu Haga frá í morgun.

Fram kom í Viðskiptablaðinu í maí síðastliðinum að sala á sérvörum Haga hafi dregist saman. Finnur Árnason, forstjóri Haga, sagði í samtali við blaðið það mega m.a. rekja til skattastefnu stjórnvalda. Af þeim sökum væri stefnt að sölu fjögurra sérverslana. Þá kom fram að viðskiptavild sérverslana Haga hafi verið afskrifuð að fullu.

Hagnaður Haga nam rúmum 1,5 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum rekstrarárs félagsins sem var talsvert meira en á sama tíma í fyrra.

Ekki náðist í Finn vegna málsins í morgun.

Uppgjörskynning Haga