*

laugardagur, 26. september 2020
Innlent 3. janúar 2020 17:35

Hagar fá að kaupa Mjöll Frigg

Samkeppniseftirlitið samþykkir kaup Olís, dótturfélags Haga, á hreinsiefnaframleiðandanum Mjöll Frigg.

Ritstjórn
Jón Ólafur Halldórsson er forstjóri Olíuverzlunar Íslands, sem nú er dótturfélag Haga.
Eva Björk Ægisdóttir

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Olíuverzlunar Íslands ehf, dótturfélags Haga hf, á öllu hlutafé í Mjöll Frigg ehf. Hafa Olís og Samkeppniseftirlitið gert með sér sátt og með henni tekur samruninn gildi.

Tilkynnt var um kaupin í apríl síðastliðnum og var þá gerður kaupsamningur milli Olís og seljenda sem eru Ölgerðin Egill Skallagrímsson og stjórnendur Mjallar Friggjar, með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

„Við hjá Olís fögnum samþykkt þessa samruna og getum nú hafist handa við að veita viðskiptavinum okkar enn betri og víðtækari þjónustu en áður. Vörur, þjónusta og reynsla Mjallar Friggjar eru kærkomin viðbót við þá flóru sem Olís býður viðskiptavinum sínum upp á og endurspegla kaupin stefnu félagsins til framtíðar,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, framkvæmdastjóri Olís.

Mjöll Frigg hefur frá árinu 1929 framleitt hreinlætisefni fyrir heimili og iðnað og er stærsti framleiðandi á hreinlætisvörum á Íslandi. Á rekstrarárinu 2018/2019 námu tekjur félagsins 663 milljónir króna.