*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 12. janúar 2017 18:00

Hagar færa út kvíarnar

Hagar hafa á undanförnum mánuðum einbeitt sér að því að bæta reksturinn. Fyrirtækið hefur opnað Krispy Kreme kaffihús, fækkað fermetrum og keypt Lyfju hf.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Í árshlutauppgjöri Haga, sem birtist stuttu eftir lokun markaða í dag, má finna áhugaverðar upplýsingar um framtíðarstefnu Haga. Einnig segir félagið fyrstu 9 mánuði rekstrarársins hafa verið á áætlun og svo gefur félagið einnig í skyn að uppgjör desembermánaðar muni vera sambærilegt fyrra ári.

Horfur næstu mánaða eru í takti við áætlanir, sem gera ráð fyrir sambærilegri niðurstöðu og á fyrra ári. Verðhjöðnun er í ákveðnum vöruflokkum sem mun hafa áhrif á veltu félagsins í krónum talið, en ekki er gert ráð fyrir áhrifum á afkomuna.

Einnig er fjallað um innri vöxt félagsins og þá uppbyggingu sem ráðist hefur verið í og þá uppbyggingu sem ráðast á í á næstu misserum. Á tímabilinu, sem nú er liðið, var matvöruhluta Hagkaups í Holtagörðum til að mynda lokað, verslun Útilífs í Glæsibæ auk tveggja tískuverslana. Þá var verslun Hagkaups í Smáralind einnig lokuð í nær tvo og hálfan mánuð vegna breytinga.

Í nóvember undirritaði félagið þó kaupsamning um kaup á öllum hlutum í Lyfju hf. Kaupverðið nam 6,7 milljörðum króna, en samningurinn var þá undirritaður með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gangi allt eftir, verður gengið frá viðskiptunum fyrir 1. júlí 2017.

Í desember var einnig undirritaður nýr leigusamningur við Reiti um verslun Hagkaups í Kringlunni. Verslunin mun verða á einni hæð, í stað tveggja og mun því minnka um allt að 3.500 fermetra. Efri hæð verslunarinnar verður þá lokað í febrúar 2017 og þá er stefnt að því að endurbæta verslunina á neðri hæð Kringlunnar.

Félagið hefur einnig undirritað kaupsamning á 4.706 fermetra eignarhlut í Skeifunni 11, auk hlutfallslegrar hlutdeildar í sameign. Kaupverðið nam 1.714 milljónum króna og var fjármagnað úr sjóði. Innifalið í kaupverðinu var réttur félagsins til tryggingabóta, en stór hluti eignarinnar skemmdist í bruna árið 2014.

Þótt óljóst sé, hvað Hagar ætli nákvæmlega að gera við húsnæðið í Skeifunni 11, má sjá að félagið sé að einbeita sér að innri vexti, uppbyggingu og endurbótum. Auk þess er verið að færa út kvíarnar með því að festa kaup á Lyfju og með því að opna Krispy Kreme kaffihús á Íslandi.

Stikkorð: Hagar Markaðir Lyfja Nasdaq