Hagar fagna því að framundan séu verulegar breytingar að stefnu stjórnvalda í málum sem snúa að viðskiptafrelsi sem Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra lýsti yfir í gær. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Högum.

Breytingarnar felast í auknu viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur, áfengi, lyf og þær snúa einnig að merkingum á dagvöru.  Allt eru þetta baráttumál, sem Hagar hafa lagt ríka áherslu á.

Hagar hafa um árabil barist fyrir auknu frelsi í innflutningi á landbúnaðarvörum og standa þessa stundina í málaferlum við ríkið um framkvæmd alþjóðasamninga og framkvæmd íslenskra laga.  Ríkið skilaði t.a.m. greinargerð í héraðsdómi Reykjavíkur í gær, þar sem stjórnvöld vilja ekki heimila innflutning á fersku kjöti og brjóta þar með alþjóðasamninga að mati Haga.  Tímasetning greinagerðarinnar er sérstök í meira lagi, þegar haft er í huga að yfirlýsing ráðherra birtist samdægurs.

Öll framangreind baráttumál Haga munu stuðla að aukinni hagkvæmni í rekstri verslana, auknu vöruvali og þar með lægra vöruverði til viðskiptavina.  Verslun á landsbyggðinni mun hafa sterkari grunn og þjónusta og vöruval þar mun batna.

Það er því fagnaðarefni að öll framangreind mál séu loks komin á dagskrá hjá stjórnvöldum.  Gera verður ráð fyrir að snörp tímaáætlun liggi fyrir á næstu dögum.