Hluti af starfsemi vöruhúss Aðfanga mun flytja á vormánuðum. Fyrirtækið keypti í fyrra fasteign við Skútuvog 5 í Reykjavík. Fram kemur í uppgjörstilkynningu Haga að um er að ræða kæli- og frystivörugeymslu vöruhússins en hún var áður í leiguhúsnæði við Brúarvog í Reykjavík.

Auk þessa mun hefjast vinna við að undirbúa byggingu nýs vöruhúss Banana en félagið hefur fest kaup á lóð við Korngarða 1 í Reykjavík. Samhliða þessu mun félagið jafnframt áfram skoða nýja fjárfestingakosti í kjarnastarfsemi sinni, nýjar staðsetningar, vinna í að fækka óhagkvæmum fermetrum auk þess að stefna að áframhaldandi niðurgreiðslu skulda, að því er segir í uppgjörinu.

Eins og fram kom fyrr í dag nam hagnaður Haga 800 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi. Það er um 300 milljónum krónum meira en ári fyrr.