*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 2. september 2019 17:05

Hagar hækka mest í nýrri viku

Reginn og Brim hækkuðu einnig vel sem og Úrvalsvísitalan, en einungis tvö félög lækkuðu í viðskiptum dagsins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,74%, upp í 2.017,18 stig í viðskiptum dagsins, en þau námu um 1,3 milljörðum í heildina.

Mest hækkun var á gengi bréfa Haga, eða 2,28% í 121 milljóna króna viðskiptum og fóru þau upp í 40,35 krónur. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Reginn, eða um 1,45%, fóru þau upp í 21,0 krónur í 115 milljóna króna viðskiptum.

Þriðja mesta hækkunin var á gengi bréfa Brim, sem hét áður HB Grandi, eða um 1,33% í 215 milljóna króna viðskiptum, en það voru jafnframt mestu viðskiptin með bréf í einu félagi. Lokagengi bréfa félagsins nam 38,10 krónum.

Mest lækkun var hins vegar á gengi bréfa Icelandair, eða um 1,51%, niður í 7,19 krónur, í 41 milljóna króna viðskiptum. Einungis eitt annað félag, Síminn, lækkaði í virði í kauphöllinni í dag, eða um 0,22% í 115 milljóna króna viðskiptum.

Krónan veikist nema gagnvart pundinu

Gengi krónunnar veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, utan breska pundsins. Veiktist pundið um 0,33%, og fæst það nú á 152,33 krónur.

Norska krónan styrktist mest gagnvart þeirri íslensku, eða um 0,62%, upp í 13,871 krónu kaupgengi. Japanska jenið styrktist næst mest, eða um 0,57%, og fæst það nú á 1,1879 krónur.

Bandaríkjadalurinn styrktist um 0,52%, upp í 126,27 krónur en evran styrktist minnst, eða um 0,29% og er kaupgengi hennar á 138,44 krónur.

Stikkorð: Hagar Úrvalsvísitalan Icelandair Reginn Síminn Brim Nasdaq Kauphöllin