Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,55% í dag en viðskipti á hlutabréfamarkaði námu rúmlega 3,3 milljörðum króna. Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði um 0,01% og stendur því í 1.362,32 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu tæplega 8 milljörðum króna.

Mest hækkuðu bréf Haga eða um 3,38% í 439 milljón króna viðskiptum en bréf félagsins stóðu í 41,30 krónum við lokun markaða. Næst mest hækkuðu bréf N1 eða um 3,24% í 690 milljón króna viðskiptum sem voru jafnframt mestu viðskipti dagsins. Bréf félagsins standa því í 127,50 krónum.

Bréf Eimskipa lækkuðu mest í dag eða um 5,95% eftir að félagið sendi frá sér afkomuviðvörun. Gengi bréfa Eimskipa var 245,00 krónur þegar markaðir lokuðu en viðskipti með bréf félagsins námu 203 milljónum króna. Þá lækkuðu bréf Reita um 1,19% í 166 milljón króna viðskiptum en við lok dags stóðu bréf fasteignafélagsins í 91,30 krónum.