Hagar hækkuðu mest í viðskiptum dagsins eða um 2,75%, upp í 50,40 krónur, í 100 milljóna króna viðskiptum í kauphöll Nasdaq á Íslandi, en það voru jafnframt þriðju mestu viðskiptin með bréf í einu félagi í dag.

Heildarviðskiptin á hlutabréfamarkaði kauphallarinnar í dag námu 1,2 milljörðum króna, og lítil sem engin viðskipti voru með mörg félaganna og stóðu sex þeirra í stað í verði. Úrvalsvísitalan hreyfðist jafnframt lítið en hún hækkaði um 0,06%, upp í 2.069,84 stig.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa VÍS eða um 1,18%, í 57 milljóna króna viðskiptum og nam lokagengi bréfa tryggingafélagsins 11,97 krónum. Eik fasteignafélag sá svo þriðju mestu hækkunina á sínum bréfum, eða um 0,89%, í 9,08 krónur, í litlum viðskiptum eða fyrir 14 milljónir króna.

Mest lækkun var á aftur á bréfum Sýnar, eða um 1,61%, niður í 36,60 krónur, en viðskiptin voru einnig fyrir litlar fjárhæðir eða 17 milljónir króna. Næst mest lækkun var svo á gengi bréfa Marel, eða um 0,51%, í jafnframt næst mestu viðskiptunum, eða fyrir 241 milljón króna, og nam lokagengi bréfa félagsins 580 krónum.

Þriðja mesta lækkunin var svo á gengi bréfa Icelandair, eða um 0,51%, niður í 7,81 krónu, en viðskiptin með bréf flugfélagsins námu 73 milljónum króna. Mestu viðskiptin í kauphöllinni í dag voru með bréf Arion banka, eða fyrir 306,7 milljónir króna, en gengi bréfa bankans hækkuðu um 0,37%, upp í 81,30 krónu.

Allar helstu viðskiptamyntir íslensku krónunnar veiktust gagnvart henni í dag, sínu mest breska pundið sem veiktist um 0,72%, og fæst nú á 161,05 krónur. Evran veiktist um 0,44%, niður í 136,35 krónur, og Bandaríkjadalur veiktist um 0,27%, og fæst hann nú á 123,94 krónur.