Hagar hafa hætt við að nýta sér hlutabótaleið stjórnvalda og bætist fyrirtækið þar með í hóp Skeljungs og Festi sem einnig hafa fallið frá sömu áformum.

Munu Hagar endurgreiða Vinnumálastofnun allan kostnað sem féll til vegna starfsfólks dótturfyrirtækja félagsins, alls 36 milljónir króna.

Fréttatilkynningu Haga vegna málsins má sjá í heild hér að neðan:

Stjórn Haga ákvað í dag að endurgreiða Vinnumálastofnun allan þann kostnað sem féll til vegna starfsfólks dótturfyrirtækja Haga sem nýttu sér hlutabótaleiðina í aprílmánuði. Því starfsfólki verður sömuleiðis boðið að fara aftur í það starfshlutfall sem áður var. Endurgreiðslan nemur um 36 milljónum króna.

Mikil óvissa ríkti í verslun og þjóðfélaginu öllu þegar ákvörðun um að nýta hlutabótaleið ríkisstjórnar var tekin innan Haga, í þessu tilfelli Zöru, Útilíf og veitingasölu Olís. Var það gert til að forðast uppsagnir og viðhalda ráðningasambandi við starfsfólk eftir fremsta megni. Önnur dótturfyrirtæki Haga nýttu sér ekki þessa leið, t.a.m. Bónus, Hagkaup, vöruhúsin Aðföng og Bananar, lyfjaverslanir og framleiðslustöðvar. Ekki hefur þurft að grípa til uppsagna innan samstæðunnar vegna Covid 19.

Á þessum tímapunkti er betur hægt að sjá þau áhrif sem faraldurinn mun hafa á félagið í heild og eru þau minni en óttast var í upphafi. Nú telst því rétt að endurgreiða þá fjárhæð sem Vinnumálastofnun greiddi til starfsfólks Haga í aprílmánuði.

Einnig tók stjórn Haga ákvörðun um að ljúka endurkaupaáætlun eigin hluta fyrr en áætlað var en áætlunin hefur verið í gildi frá 28. febrúar sl. Áætlað var að endurkaup myndu nema 500 milljónum króna að hámarki en félagið hefur þegar keypt eigin hluti skv. áætluninni að fjárhæð 450 milljónir króna.