Rekstrartekjur Haga hf. námu 46.377 millj. kr. en rekstrargjöld án afskrifta námu 44.829 millj. kr. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 1.548 millj. kr. Afskriftir námu 1.522 millj. kr. og hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta nam 26 millj. kr. á rekstrarárinu. Hagnaður félagsins fyrir skatta, að teknu tilliti til fjármagnsliða nam 1.534 millj. kr., en fjármagnsliðir voru nettó jákvæðir um 1.508 millj. kr. Að teknu tilliti til reiknaðra skatta nam hagnaður félagsins 1.302 millj. kr. á rekstrarárinu 2004/05. Ástæðan fyrir jákvæðum fjármagnsliðum má fyrst of fremst rekja til söluhagnaðar vegna sölu félagsins á Lyfju hf.

Heildareignir félagsins námu 34.017 millj. kr. í febrúarlok 2005. Fastafjármunir námu samtals 23.731 millj. kr. og veltufjármunir námu 10.286 millj. kr. en þar af nema kreditkortakröfur 2.129 millj. kr. Heildarskuldir félagsins námu 27.393 millj. kr., þar af námu langtímaskuldir 17.402 millj. kr. Eigið fé og víkjandi lán nam 6.624 millj. kr. eiginfjárhlutfall að teknu tilliti til víkjandi láns var 19,5% í febrúarlok 2005.

Veltufé frá rekstri nam 722 millj. kr. á árinu og handbært fé frá rekstri nam 562 millj. kr.

Í apríl 2004 eignaðist félagið allt hlutafé í Lyfju hf. en átti fyrir 55% í félaginu. Félagið seldi síðan í maí 2004 alla hluti sína í Lyfju til Vátryggingafélags Ísland hf.

Félaginu var skipt 1. september 2004 og tók DBH Holding ehf. yfir eignarhlutina og lánveitingar til dótturfélaganna DBH Stockholm AB og DBH Danmark AS. Rúmlega 99% af veltu félagsins kemur nú frá innlendri starfsemi.

Í október 2004 eignuðust Hagar allt hlutafé í Skeljungi hf. og í sama mánuði fóru Hagar á markað með 7.000 millj. kr. skuldabréfaútboð sem skráð er í Kauphöll Íslands. Efnahagsreikningur Skeljungs kemur að fullu inn í samstæðureikning Haga en rekstur Skeljungs kemur einungis inn fyrir 5 síðustu mánuði rekstarársins.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir er undir væntingum stjórnenda félagsins. Helstu ástæður liggja í lakari afkomu á olíumarkaði og verri afkomu hjá félögunum í Skandínavíu en afkoma þar var undir áætlun.

Hagar hafa bætt rekstur sinn á hverju ári s.l. þrjú ár og vel hefur tekist til með þær breytingar og áherslur sem félagið hefur innleitt. Stjórnendur félagsins telja mörg fyrirtæki félagsins eiga mikið inni og enn sé tækifæri til vaxtar og bættrar afkomu. Kaup félagsins á Skeljungi er umbreytingarverkefni með það að markmiði að einfalda rekstur félagsins og lækka rekstrarkostnað þess þannig að það geti boðið íslenskum fyrirtækjum og neytendum betra verð og þjónustu. Ljóst er að Skeljungur hefur nú hagrætt meira í rekstri sínum en áður hefur þekkst hjá íslensku olíufélagi. Grimm samkeppni er á lágvöruenda matvörumarkaðar og hart barist um hvern viðskiptavin. Viðskiptavinir félagsins hafa verið ánægðir með verð og vöruframboð félagins og hefur fjöldi viðskiptavina vaxið mikið síðustu mánuði. Félagið hefur fram til þessa boðið Íslendingum lægra verð á matvöru en aðrir hafa boðið og hyggst halda því áfram segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.