Hagar hf., móðurfélag Bónuss, hagnaðist um 3,8 milljarða króna á rekstrarárinu 2014-2015. Reikningsár félagsins er frá 1. mars 2014 til 28. febrúar 2015. Hagnaður haga var rúmum 100 milljónum meiri í fyrra, eða um 3,9 milljarðar.

„Stjórn félagsins mun leggja til við aðalfund þann 4. júní nk. að greiddur verði arður til hluthafa sem nemur 1,7 krónu á hlut eða tæpar 1.992 milljónir króna," segir í tilkynningu frá Högum. Verði sú tillaga samþykkt verður greiddur öllu hærri arður en í fyrra, en arðgreiðslur námu 1,2 milljarði á seinasta rekstrarári.

Verkföll gætu haft áhrif

„Rekstrarárið sem var að líða stóðst áætlanir félagsins. Stöðugleiki einkennir uppgjörið. Sambærilegar horfur eru í rekstri fyrir rekstrarárið 2015/16 sem hófst í mars sl. og gera áætlanir félagsins ráð fyrir því. Mikil óvissa ríkir á vinnumarkaði en í áætlun ársins gerði félagið ráð fyrir hóflegri hækkun launa og stöðugleika í verðlagi og gengi íslensku krónunnar. Ef til víðtækra verkfalla kemur munu verkföllin hafa áhrif á félagið, þó að á þessari stundu séu fjárhagsleg áhrif þeirra óljós," segir í tilkynningu frá Högum.

Opna nýja Bónusverslun í Breiðholti

Hagar fjárfestu á seinasta ári í fasteigninni við Stekkjarbakka 4-6 í Reykjavík. Hluti fjárfestingarinnar var fjármagnaður með langtímalánið hjá Arion banka. „Áform eru um að opna Bónusverslun á þeim hluta lóðarinnar sem stendur við hlið Garðheima og ÁTVR, en eignin er tekjuberandi og langtímaleigusamningar við þá tvo aðila fylgdu kaupum eignarinnar. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvenær verslunin verður opnuð," segir í tilkynningu.

Þá stendur til að opna Bónusverslanir í Skipholti í Reykjavík og Vestmannaeyjum. „Vonir standa til að báðar verslanir opni á haustmánuðum."