Árshlutauppgjör Haga fyrir fyrsta ársfjórðung rekstrarársins (mars-maí) var samþykkt af stjórn félagsins í gær. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármangnsliði og skatta (EBITDA) var 2.034 milljónir króna og hagnaður eftir skatta nam 665 milljónum króna á tímabilinu, að því er kemur fram í tilkynningu frá félaginu til Kauphallar.

Olíuverzlun Íslands og fasteignafélagið DGV komu inn í samstæðu Haga í upphafi fjórða ársfjórðungs síðasta rekstrarárs sem hófst í 1. Desember 2018. Rekstrartölur frá sama fjórðungi síðasta árs eru því ekki samanburðarhæfar. Þá var innleiddur nýr reikningskilastaðall sem jafnframt skekki samanburð á milli ára. Áhrif staðalsins á rekstrarreikning tímabilsins er 511 milljón króna hækkun á EBITDA, 388 milljón króna hækkun á afskriftum og 121 milljón króna hækkun á vaxtagjöldum.

Hagar seldu vörur fyrir 28,6 miiljarða króna, samanborið við 18,6 milljarða króna árið áður. Aukningin skýrist að mestu leyti af áhrifum Olís, en í tilkynningu Haga segir að án áhrifa Olís hafi söluaukning félagsins verið 4,5%. Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 2.034 milljónum króna, samanborið við 1.193 milljónir króna árið áður. EBITDA-hlutfall var 7,1%, samanborið við 6,4% árið áður.  Hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 665 milljónum króna, sem jafngildir 2,3% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 728 milljónir eða 3,9% af veltu.

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 61.469 milljónum króna. Fastafjármunir voru 44.613 milljónir króna en þar af er leigueign 9.405 milljónir króna. Veltufjármunir voru 16.856 milljónir króna en þar af eru birgðir 8.084 milljónir króna.

Eigið fé félagsins var 24.391 milljón króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 39,7%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 37.078 milljónir króna en þar af voru leiguskuldir 10.095 milljónir króna. Vaxtaberandi langtímaskuldir voru 12.236 milljónir króna en stór hluti þeirra er á gjalddaga í október og nóvember nk. og eru því meðal skammtímaskulda.

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 4.967 milljónum króna, samnborið við 550 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 810 milljónir króna, samanborið við 207 milljónir króna á fyrra ári. Fjármögnunarhreyfingar voru 1.179 milljónir króna, samanborið við 192 milljónir króna á fyrra ári. Handbært fé í lok tímabilsins var 3.714 milljónir króna, samanborið við 373 milljónir króna árið áður.

Áætlun stjórnenda fyrir rekstrarárið 2019/20 er óbreytt, eða 6.650-7.100 milljónir króna. Þann 7. júní 2019 samþykkti aðalfundur félagsins að greiddur yrði arður til hluthafa sem nemur 50% hagnaðar síðastliðins árs eða 1.158,5 millj. kr. Arðurinn var greiddur þann 27. júní s.l og sama dag var tilkynnt júní sl. var tilkynnt um endurkaupaáætlun félagsins. Endurkaup geta numið að hámarki 121.333.384 hlutum, eða 10% af útgefnum hlutum í félaginu, en þó þannig að fjárhæðin verður aldrei hærri en 500 milljónir króna. Framkvæmd endurkaupa­áætlunarinnar er í höndum Arctica Finance hf.