Hagar högnuðust um 728 milljónir á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 850 milljónir á sama tíma í fyrra. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2018 til 31. maí 2018.

Vörusala tímabilsins nam 18,6 milljörðum króna samanborið við 19 milljarða króna árið á undan.

Framlegð tímabilsins var 4,6 milljarðar króna eða 24,7%. Á sama tíma í fyrra nam framlegðin 4,7 milljörðum eða 24,9%.

EBITDA tímabilsins var 1,19 milljarðar samanborið við 1,3 milljarða árið á undan. EBITDA hlutfall ársfjórðungsins var 6,4% samanborið við 6,7% árið á undan.

Eigið fé félagsins nam 18,7 milljörðum og eiginfjárhlutfallið var 61,6%.

Fyrsti ársfjórðungur var í takti við áætlanir félagsins. Horfur næstu mánaða gera ráð fyrir að áætlanir standist og er því áætlun stjórnenda sem gefin var út fyrir rekstrarárið 2018/19 óbreytt en eins og fram kom samhliða birtingu ársuppgjörs félagsins er gert ráð fyrir að EBITDA samstæðunnar verði um 5.000 milljónir króna. Fjárfestingaáætlun er einnig óbreytt eða um 1.800-2.000 milljónir króna.