Hagnaður Haga-samstæðunnar nam 1.554 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins. Nýtt ár hefst í mars hjá Högum. Þetta er 528 milljónum krónum meiri hagnaður en á sama tíma í fyrra.

Í uppgjöri Haga segir að reksturinn hafi verið betri en væntingar voru um enda sé hann betri en á sama tíma í fyrra. Horfurnar eru ágætar fyrir seinni hluta rekstrarársins.

Fram kemur í uppgjöri Haga að sala nam 35.569 milljónum króna á tímabilinu sem er tæpum 1,9 milljörðum meira en í fyrra.

Þá nam rekstrarhagnaður (EBITDA), þ.e. hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta 2.632 milljónum krónum samanborið við 2.188 milljónir á fyrri hluta rekstrarársins í fyrra.

Framlegð félagsins er 8.625 milljónir króna samanborið við 8.026 milljónir króna árið áður eða 24,2% samanborið við 23,8%. Launakostnaður stendur nánast í stað milli tímabila en annar rekstrarkostnaður hefur hækkað um 5,9%.

Heildareignir Haga-samstæðunnar namu 24.429 milljónum króna í lok fyrri hluta ársins. Handbært fé nam 2.943 milljónum króna og var eigið féð 7.327 milljónir króna. Eigið fé Haga var 30% í lok tímabilsins samanborið við 26,6% í fyrra.

Ætla að sækja rétt sinn

Eins og áður hefur komið fram hafa Hagar ákveðið að leita réttar síns vegna gengistryggðra lána sem félagið var með hjá Arion banka. Félagið telur að nýfallinn dómur Hæstaréttar í máli Borgarbyggðar gegn Arion banka styrki enn frekar afstöðu þess um málið en um er að ræða 824 milljónir kröfu, m.v. endurútreikning 29. febrúar sl. Málið er sem stendur í höndum lögfræðings félagsins.

Uppgjör Haga