Hagar hagnaðist um 2.344 milljónir króna í fyrra samanborið við 1,1 milljarðs króna hagnað árið 2010. Aukningin nemur rétt rúmum 100%. Hagnaðurinn nemur 2 krónum á hlut samanborið við 96 aura hagnað á hlut árið 2010.

Fram kemur í uppgjöri Haga að tekjur hafi numið 68,5 milljörðum króna samanborið við 66,7 milljarða árið 2010. Að teknu tilliti til brotthvarfs 10-11 verslananna úr Hagasamstæðunni nam söluveltan 5,3% á milli ára.

Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 4.183 milljónum króna.

Heildareignir námu í lok rekstarársins 23,4 milljörðum króna samanborið við 21,8 milljarða í lok árs 2010. Handbært fé nam 2.149 milljónum króna.

Eigið fé nam 6.221 milljónum króna í lok resktarársins og var eiginfjárhlutfall 26,6%. Á sama tíma í fyrra nam það 16,6%.

Heildarskuldir námu í lok rekstarársins námu 17.184 milljónum króna, þar af voru langtímaskuldir 10.468 milljónir.

Fram kemur í uppgjörinu að birgðir Haga hafi aukist um 10,3% á milli ára. Það megi rekja til verðhækkana þar sem hvert stykki sé nú dýrara en áður.

Þá kemur fram að innra virði hlutafjár Haga í lok febrúar nam 5,31 samanborið við 3,08 í lok síðasta rekstrarárs í febrúar í fyrra.