Hagar voru að birta árshlutauppgjör fyrir annan ársfjórðung 2015. Árshlutauppgjörið nær yfir tímabilið 1. mars til 31. ágúst.

Hagnaður félagsins var 1.986 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi og lækkar lítillega milli ára, en hann var 2.094 milljónir í fyrra.

Vörusala tímabilsins var rúmlega 38 milljarðar króna og hækkar um 0,1% milli ára. Framlegð fyrirtækisins var 9.332 milljónir króna og hækkar lítillega milli ára. Rekstrarkostnaður félagsins í heildina hækkar um 272 milljónir króna, en það er 4,3% hækkun. EBITDA afkoma félagins lækkar milli ára, hún er 2.868 milljónir króna í ár en var 3.043 milljónir króna árið áður.

Heildareignir félagins voru 27.974 milljónir króna og eiginfjárhlutfall var 52,8%.

Í tilkynningu til kauphallarinnar kemur fram að áhrif verkfalla og kostnaðarauki vegna kjarasamninga setti mark sitt á fyrsta ársfjórðung Haga. Annar ársfjórðungur hafi verið betri og hagnaður jókst umfram áætlanir félagsins.