Haga-samstæðan hagnaðist um 1.973 milljónir króna á fyrri hluta ársins, sem er fyrsti og annar ársfjórðungurinn í rekstrarári Haga. Til samanburðar nam hagnaðurinn á sama tíma í fyrra 1.554 miljlónum króna. Hann er því 27% meiri nú en í fyrra. Þetta er í samræmi við afkomuspá IFS Greiningar . Á öðrum ársfjórðungi nam hagnaður Haga 1.136 milljónum króna samanborið við 926 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi árið 2012.

Fram kemur í uppgjöri Haga að hagnaður fyrir skatta nam 2.466 milljónum króna samanborið við 1.966 milljónir króna á tímabilinu. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 3.003 milljónum króna.

Velta nam 37.794 milljónum króna á fyrri hluta ársins borið saman við 35.569 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Söluaukning félagsins er 6,26%. Þar af nam veltan 19.415 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi sem var 1,2 milljörðum krónum meira en á sama tíma í fyrra.

Þá var framlegð félagsins 9.115 milljónir króna samanborið við 8.625 milljónir króna árið áður eða 24,1% samanborið við 24,2%, þ.e. framlegð félagsins lækkar um 0,1% milli tímabila. Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 1,8% milli ára en kostnaðarhlutfallið lækkar úr 17,1% í 16,4%.

Heildarskuldir samstæðunnar voru 16.749 milljónir króna, þar af voru langtímaskuldir 8.124 milljónir króna. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins í lok tímabilsins voru 4.268 milljónir króna en 500 milljónir króna voru greiddar inn á langtímalán félagsins umfram lánssamning á tímabilinu.

Fram kemur í uppgjöri Haga að heildareignir Haga-samstæðunnar námu 26.867 milljónum króna í fyrri hluta rekstrarársins. Þá nam handbært fé félagsins 3.854 milljónum króna. Eigið fé Haga nam í lok tímabilsins 10.118 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið var 37,7% í lok tímabilsins.