*

laugardagur, 26. september 2020
Innlent 29. janúar 2020 17:15

Hagar halda áfram að hækka

Fasteignafélögin með atvinnuhúsnæði lækkuðu mest í töluverðum viðskiptum í dag. Hagar hækkað um helming frá 2017.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Gengi bréfa Haga hækka mest annan daginn í röð í kauphöll Nasdaq á Íslandi, en gengi bréfa félagsins hækkaði um 1,79, í 118 milljóna króna viðskiptum í dag. Hins vegar lækkuðu fasteignafélögin þrjú með atvinnuhúsnæði mest, þar af Reginn langmest eða um 3,26%, en Eik lækkaði um 2,53% og Reitir um 2,44%.

Þar af voru mestu viðskiptin með bréf Reita, eða fyrir 393 milljónir krónur, sem jafnframt voru næst mestu viðskiptin með bréf í einu félagi í dag, en gengi þess fór í 76,10 krónur. Eik fór í 8,85 krónur í 226 milljóna viðskiptum en Reginn var í sínu meiri viðskiptum eða fyrir 299 milljónir og lækkaði gengi þess niður í 22,25 krónur.

Heildarviðskiptin í kauphöllinni í dag námu 2,9 milljörðum króna, en Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,12%, niður í 2.067,38 stig. Einungis fjögur félög hækkuðu í virði í dag, og tvö stóðu í stað, hin lækkuðu.

Eins og áður segir hækkaði gengi bréfa Haga mest, og fór lokagengið í 51,30 krónur, og hefur það ekki verið jafnhátt síðan 31. janúar 2017, en það ár fór lokagengi félagsins hæst, eða í 55,85 krónur hvert bréf þann 15. maí.

Lækkunin síðan þá nemur 8,1%, en frá hæsta punkt til 25. október þegar bréfin fóru lægst eftir það lækkuðu bréfin um 40%, en hafa svo hækkað síðan þá um 51,3%. Næst mest var hækkun gengis bréfa Arion banka, eða um 0,86%, upp í 82 krónur, í 363,2 milljóna króna viðskiptum sem jafnframt voru þau þriðju mestu með bréf eins félags í kauphöllinni í dag.

Þriðja mesta hækkunin var svo á gengi bréfa Sýnar, eða um 0,27%, í 36,70 krónur, í 29 milljóna króna viðskiptum. Mestu viðskiptin voru eftir sem áður með bréf Marel eða fyrir 575,2 milljónir króna en gengi bréfanna halda áfram að lækka, um 0,17% í dag, í 579 krónur.

Gengi allra helstu viðskiptamynta krónunnar lækkaði gagnvart henni í dag, þannig fór evran niður um 0,51% niður í 136,65 krónur, Bandaríkjadalur lækkaði um 0,46%, niður í 123,28 krónur, og breska pundið lækkaði um 0,35%, niður í 160,37 krónur.

Norska krónan lækkaði þó mest, eða um 0,85%, niður í 13,447 króna kaupgengi, en einnig var lækkun á gengi japanska jensins, svissneska frankans og dönsku og sænsku krónunnar gagnvart þeirri íslensku.

Stikkorð: Hagar Úrvalsvísitalan Reginn Nasdaq Reitir Eik