Gengi hlutabréfa í stærsta smásölufyrirtæki landsins, Högum, halda áfram að lækka. Þegar þetta er ritað hefur gengi hlutabréfa í Högum lækkað um 4,7% í 307 milljón króna viðskiptum. Fæst hver hlutur í fyrirtækinu nú á 37,5 krónur. Við lokun markaða í gær höfðu bréf Haga lækkað um 4,3%.

Hagar sendu frá sér afkomuviðvörun síðastliðinn miðvikudag, þar sem fram kom að sala Haga hafi dregist saman um 8,5% í júní vegna „breyttrar markaðsstöðu“ og sömuleiðis að ljóst væri að aukin samkeppni myndi hafa áhrif á afkomu Haga á öðrum ársfjórðungi.

Gengi hlutabréfa í Högum hafa lækkað um 29,3% frá opnun Costco þann 23. maí síðastliðinn. Miðað við núverandi gengi nemur lækkunin frá opnun Costco rúmlega 32%.