Hagnaður Haga dróst saman um nærri þriðjung á milli ára á þriðja ársfjórðungi. Nýjar vefverslanir veltu langt umfram væntingar, en eldsneytissala dróst saman.
Hagar högnuðust um 448 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi rekstrarársins 2020 til 2021, eða á tímabilinu 1. september 2020 til 30. nóvember 2020. Aukinheldur var afkoma desembermánaðar umfram væntingar.

Hagnaðurinn dróst þar með saman milli ára um 28,7%, úr 628 milljónum króna á sama tímabili fyrir ári. Hagnaðurinn dróst að sama skapi saman úr 2,2% af veltu í 1,5% af veltu.

Tekjur félagsis jukust um 5,4% á milli ára, úr tæplega 28,4 milljörðum króna í rétt tæplega 29,9 milljarða króna, meðan rekstrargjöldin jukust um 6,8%, úr ríflega 26,1 milljarði króna í rétt rúmlega 27,9 milljarða.
Þar af jukust laun og launatengd gjöld um 6,9% milli ára, úr tæpum 3 milljörðum króna í tæplega 3,2 milljarða króna.

Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) þriðja ársfjórðungs nam 1.947 milljónum króna, en á sama tíma fyrir ári nam EBITDA 2.213 milljónum króna. Framlegðarhlutfall þriðja ársfjórðungs var 21,5% en á sama tíma árið áður var hlutfallið 22,2%.

Eiginfjárhlutfallið hækkaði eilítið

Eigið fé félagsins jókst á milli ára um 3,1%, úr 24,6 milljörðum króna, í ríflega 25,3 milljarða króna. Samhliða jukust skuldirnar um 0,7%, úr 62,7 milljörðum króna í ríflega 63,7 milljarða króna. Þar með jókst eiginfjárhlutfallið um hálft prósentustig, eða úr 39,2 í 39,8%.

Á fyrstu níu mánuðum rekstrarársins, það er frá 1. mars til 30. nóvember, dróst hagnaður Haga saman um nánast sama hlutfall og á þriðja ársfjórðungi, eða um 28,8%, úr 2.349 milljónum í 1.673 milljónum króna. Tekjurnar jukust hins vegar um 1,3%, úr 88,1 milljarði króna í 89,2 milljarða, meðan rekstrargjöldin jukust um 1,9%, úr 81,4 milljörðum í tæplega 83 milljarða króna.

Þar með dróst EBITDA saman um 7%, úr 6,7 milljörðum í tæplega 6,3 milljaðra meðan Rekstrarhagnaðurinn (EBIT) dróst saman um nærri fimmtung, 18,7%, úr 3.854 í 3.133 milljónir króna. Framlegðarhlutfall fyrstu níu mánuða reikningsársins nam 21,9%, en á sama tímafyrir ári fyrr var hlutfallið 22,1%.

Vefverslun blómstrað en sóttvarnir dýrar

Haft er eftir Finni Oddssyni, forstjóra félagsins, að tekjur vegna dagvörusölu hafi aukist um 15% milli ára, og „töluvert meiri“ aukning hafi verið í sérvöruverslun. Nefnir hann leikföng og bækur hjá Hagkaupum og fatnað og útivistarvöru hjá Zöru og Útilíf.

Heilt á litið hafi framlegð hinsvegar dregist saman vegna kostnaðar við sóttvarnaraðgerðir. Gert er ráð fyrir að þeirra áhrifa gæti áfram fram á sumar. Þá hafi minni bílaumferð og samdráttur umsvifa í atvinnulífinu haft neikvæð áhrif á afkomu Olís vegna minni eldsneytissölu.

Á móti auknum kostnaði og minni eldsneytissölu vegna faraldursins segir hann þó koma jákvæð áhrif á verslunar- og vöruhúsarekstur. Meðalkaup hvers viðskiptavinar hafi aukist, á meðan heimsóknum í verslanir hefur fækkað.