Hlutabréf í Högum hafa hríðfallið í Kauphöllinni það sem af er degi. Þegar fréttin er skrifuð hafa bréfin lækkað um 5,59% í verði í 413 milljóna króna viðskiptum og er gengi þeirra nú 49.

Flest félög í Kauphöllinni hafa lækkað í dag en þó ekki nærri jafn mikið og Hagar. Næstmest er lækkunin hjá Icelandair Group, eða 4,05%. Þar á eftir kemur Skeljungur sem lækkað hefur um 3,36%. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 2,10% það sem af er morgni.

Mögulegt er að þessi gríðarlega mikla lækkun tengist fréttum þess efnis að fjármálafyrirtækið Meniga mæli veltuna í Coscto meiri en í öllum verslunum Bónus samtals frá opnun fyrrnefndu verslarinnar í síðasta mánuði. Sú frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu í morgun.

Þá fjallaði Viðskiptablaðið í gær um þann styr sem koma Costco hefur valdið hjá íslenskum smásöluaðilum, en heimildarmaður blaðsins sagðist hafa fengið skilaboð frá Högum um að vörur hans yrðu teknar úr verslunum keðjunnar ef hann myndi selja til Costco. Hagar hafa harðneitað þeim fréttum .