Í dag hefjast viðskipti með hlutabréf Haga hf. (auðkenni: HAGA) á Aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland. Hagar flokkast sem lítið félag (e. small cap) innan nauðsynjavörugeirans. Hagar eru fjórtanda félagið sem skráð er á Aðalmarkað innan NASDAQ OMX Europe á árinu 2011 en fyrsta félagið sem skráð er á NASDAQ OMX Iceland síðan frá hruni 2008.

Hagar eru verslunarfyrirtæki með starfsemi á Íslandi. Félagið rekur alls 62 verslarnir og 4 vöruhús og hefur yfir 2000 manns í vinnu í 1300 stöðugildum. Undir Haga falla meðal annars stærstu stórmarkaðir Íslands, Bónus og Hagkaup og sérleyfisverslanir heimsþekktra vörumerkja, s.s. Zara, Debenhams, Karen Millen, Warehouse, Top Shop, Oasis, Day, Evans og fleiri.

Páll Harðarson, forstjóri NASDAQ OMX Iceland sagði í tilkynningu frá félaginu, „Skráning Haga markar tímamót fyrir bæði félagið og íslenska hlutabréfamarkaðinn. Sem fyrsta félagið til að vera skráð á Íslandi síðan hrunið varð 2008, er þessi viðburður straumhvörf í uppbyggingu hlutabréfamarkaðarins. Það er við hæfi að Hagar skuli vera fyrsta félagið. Þar sem Hagar eru stærsta verslunarfyrirtæki landsins hafa flestir Íslendingar átt viðskipti við þá og þekkja félagið vel. Við bjóðum Haga hjartanlega velkomna í Kauphöllina og hlökkum til að fylgjast með félaginu blómstra.“

Finnur Árnason, forstjóri Haga sagði, „Við erum afskaplega ánægð með þær frábæru viðtökur sem hlutafjárútboðið okkar fékk. Það sýnir að fjárfestar trúa á fyrirtækið og framtíðarsýn okkar fyrir það. Þetta eru einnig meðmæli með undirbúningi okkar í aðdraganda skráningar félagsins. Hlutafjárútboðið tryggði þá dreifðu eignaraðild sem við vonuðumst eftir sem er við hæfi, í ljósi vinsælda verslana okkar á meðal íslensks almennings.“ Fyrirtæki Haga eru öll rekin sem sjálfstæð fyrirtæki og hafa þess vegna ólík rekstarform og ólíka menningu. Fyrir frekari upplýsingar um Haga, vinsamlegast farið á www.hagar.is Arion banki er umsjónaraðili með skráningunni en Arion banki ásamt Íslandsbanka eru viðskiptavakar.