Hagnaður smásölurisans Haga eftir skatta mun nema 359 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi félagsins ef spá IFS Greiningar rætist. Sagt er frá í Morgunblaðinu.

Hagar munu föstudaginn 27. janúar birta afkomu félagsins fyrir þriðja ársfjórðung – tímabilið september til og með nóvember – en rekstrarár Haga nær frá 1. mars til 28. febrúar.

Miðað við þróun hlutabréfaverðs Haga mælir IFS með því að fjárfestar haldi bréfum sínum. Gengi bréfa í Högum hefur hækkað um ríflega 26% frá því að félagið var skráð á markað um miðjan síðasta mánuð og við lok markaða í gær stóð gengið í 17,1 krónu á hlut. Samkvæmt sjóðsstreymislíkani IFS er virði félagsins hins vegar um 18,5 milljarðar króna eða um 15,8 krónur á hlut.