Hagar hf. hafa eignast allt hlutafé í Skeljungi hf. með kaupum á eignarhaldsfélaginu Sólvindum. Í fréttatilkynningu frá Högum og Skeljungi segir: "Hagar sjá með kaupunum ákveðin tækifæri á íslenskum neytendavörumarkaði til að koma betur til móts við íslenska neytendur. Tvö af fyrirtækjum Haga, Hagkaup og Bónus, komu á sínum tíma að stofnun Orkunnar með Skeljungi með það að markmiði að selja eldsneyti við stórmarkaði á lægra verði en áður þekktist og voru þannig brautryðjendur í lækkun eldsneytisverðs á Íslandi. Í dag eru bensínstöðvar frá Orkunni og Skeljungi fyrir utan tíu verslanir í eigu Haga. Jafnframt telja hluthafar að möguleikar félagsins til skráningar á hlutabréfamarkaði aukist við kaupin."

Ekki stendur til að gera neinar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi Skeljungs og verður fyrirtækið áfram rekið sem sjálfstætt hlutafélag. Pálmi Haraldsson verður áfram stjórnarformaður félagsins og Gunnar Karl Guðmundsson verður áfram forstjóri þess.

Kaupverð er ekki gefið upp en er að mestu leyti greitt með hlutabréfum í Högum, en eigendur Sólvinda voru fyrir kaupin stór hluthafi í Högum. Baugur Group, Fengur með tengdum fyrirtækjum og Stoðir eiga nú hver um sig 24-29% hlut í Högum og mynda kjölfestufjárfesta í Högum.